Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Útrýming á menningu heillar þjóðar

14.11.2020 - 07:01
epa07243050 Acehnese Muslims take part in a protest rally in support of Muslims in China, in Banda Aceh, Indonesia, 21 December 2018. According to a report of Amnesty International, about one million ethnic Uyghurs in Xinjiang province, China reportedly suffered torture and their fate was unknown after being sent to 're-education camps.'  EPA-EFE/HOTLI SIMANJUNTAK
 Mynd: EPA
Kínversk stjórnvöld eru sökuð um að reyna að eyða menningu Úígúra þar í landi og að hafa í því skyni lokað eina milljón manns inni í fangabúðum. Þar er fólk neytt til að láta af trú sinni, læra að tala kínversku, og er refsað fyrir að eignast mörg börn. Þá eru einnig dæmi um að eftir vistina þar sé fólk sent í þrælkunarvinnu í verksmiðjum.

Síðustu misseri hafa fjölmiðlar víða um heim fjallað um framkomu kínverskra stjórnvalda í garð Úígúra í Xinjiang-héraði í Kína. Samkvæmt Sameinuðu þjóðunum og fjölmörgum mannréttindasamtökum ætla kínversk stjórnvöld að breyta Úígúrum og gera þá líkari Kínverjum. Mannréttindasérfræðingar kalla þetta ýmist lýðfræðilegt þjóðarmorð eða menningarlegt þjóðarmorð. 

Það er ekki verið að drepa fjölda fólks með köldu blóði heldur virðist stefnan vera að Úígúrar hætti að tala tungumál sitt og fari að tala kínversku, eins og meirihluti Kínverja, að þeir hætti að iðka trú sína, sem er íslam, og síðast en ekki síst að koma böndum á barneignir þeirra. Talið er að um einni milljón manns sé haldið föngnum, í þessu skyni, á stöðum sem kínversk stjórnvöld kalla endurmenntunarbúðir og starfræktar eru meðal annars með það að markmiði, samkvæmt kínverskum stjórnvöldum, að stemma stigu við hættu á hryðjuverkum, minnka fátækt og efla einingu meðal Kínverja. Mannréttindasamtök, og reyndar ríkisstjórnir margra ríkja, kalla búðirnar þó ekkert annað en fangelsi án dóms og laga.

Til að fræðast nánar um stöðuna Xinjiang-héraði heyrðu Heimskviður í Sofie Richardson, sérfræðingi í málefnum Kína hjá Mannréttindavaktinni (Human Rights Watch). Hún segir að kínversk yfirvöld hafi í gegnum árin verið tortryggin í garð Úígúra og annarra múslima, það fólk þyki ekki hliðhollt stjórnvöldum. Því hafi verið gripið til ráða til að takmarka trúariðkun þeirra, en flestir Úígúrar séu múslimar. Þeir eigi ekki að tala tungumál sitt og það séu takmarkanir á ferðafrelsi þeirra.

Mynd með færslu
Sofie Richardson, mannréttindasérfræðingur og svæðisstjóri Mannréttindavaktarinnar í Kína.

Síðustu ár hafi mannréttindabrotin aukist í nafni varna gegn hryðjuverkum. Stjórnvöld hafi, af eigin geðþótta, fangelsað um eina milljón manns, vegna uppruna og trúar, en ekki vegna þess að fólk sé grunað um að hafa framið einhverja glæpi.

Skilgreina sjálfstæðisbaráttu sem hryðjuverkastarfsemi 

Úígúrar eru um tíu milljón manna þjóð sem býr í héraðinu Xinjiang í vesturhluta Kína. Þar hafa þeir búið öldum saman og því er héraðið þeirra heimaland sem þeir sjálfir kalla Austur-Túrkistan. Úígúrar eru þó fleiri og búa til að mynda í Kazakstan, Kirgistan, Úsbekistan og Tyrklandi. Tungumál þeirra, úígúr, er skylt tyrknesku. Xinjiang varð formlega að kínversku héraði seint á nítjándu öld. Frá 1949 hefur héraðið verið hluti af Alþýðulýðveldinu Kína og verið skilgreint af kínverskum stjórnvöldum sem eitt fimm sjálfstjórnarhéraða landsins. 

Úígúrar eru skilgreindir meðal fimmtíu og fimm þjóðernislegra minnihlutahópa í landinu. Meirihluti Kínverja, eða um níutíu prósent, tilheyra Han. Þegar sú regla gilti í Kína að aðeins mátti eignast eitt barn var veitt undanþága fyrir þessa fimmtíu og fimm minnihlutahópa. Þess má geta að Úígúrar eru ekki þeir einu sem búa í héraðinu. Þar búa einnig aðrir minnihlutahópar, svo sem Kasakar, sem verða fyrir sams konar ofsóknum stjórnvalda vegna trúar sinnar og uppruna. Þar býr líka fólk sem telst til Han, eins og meirihluti Kínverja. 

epa08051220 A man holds a banner during a protest against China in Istanbul, Turkey, 07 December 2019. The protest aims to highlight the critical situation of alleged human rights abuses of the Uyghur people and many other minority groups across the Xinjiang (East Turkestan) area in China.  EPA-EFE/ERDEM SAHIN
 Mynd: EBU
Mótmæli í Istanbul í Tyrklandi í desember 2019.

Xinjiang hérað er ríkt af náttúruauðlindum eins og olíu, kolum og gasi. Það liggur að Mongólíu, Rússlandi, Kirgistan, Afganistan og Tadjikistan. Síðustu ár hafa Úígúrar barist fyrir meiri sjálfstjórn og hafa brotist út mótmæli og átök vegna þess. Kínverski kommúnistaflokkurinn hefur lagt áherslu á að minnihlutahópar taki upp þær venjur og það tungumál sem tíðkast hjá meirihlutanum, Han, og láti af sínum siðum. Þetta er í þágu þess að samlyndi innan þessa stóra ríkis sé ekki ógnað. Kínversk yfirvöld hafa skilgreint sjálfstæðisbaráttu Úígúra sem hryðjuverkastarfsemi. Leiðtogar Úígúra saka kínversk stjórnvöld aftur á móti um menningarlega og trúarlega kúgun og segja að stefna þeirra sé að þangað flytji Han-Kínverjar, til að breyta fjöldahlutföllum íbúanna.

Mannréttindabrot kínverskra stjórnvalda hafa verið gagnrýnd víða um heim. Dominic Raab, utanríkisráðherra Bretlands, sagði í sjónvarpsviðtali í sumar að það væru framin hrópandi svívirðileg mannréttindabrot í Xinjiang og að bresk stjórnvöld væru að vinna að viðbrögðum með öðrum ríkjum. Hann lýsti yfir miklum áhyggjum af stöðunni, allt frá því að konur væru neyddar í ófrjósemisaðgerðir til þess að fólk væri læst inni í endurmenntunarbúðum. Slíkt hefði ekki sést árum saman, og það í ríki sem væri leiðandi á alþjóðavísu og vildi láta taka sig alvarlega.

Kínverski sendiherrann í Bretlandi, Liu Xiaoming, kom í viðtal sama dag til Andrew Marr hjá Breska ríkissjónvarpinu, BBC, og kvaðst ekki kannast við nein mannréttindabrot af þessu tagi. Marr sýndi honum loftmyndir af fangabúðunum og af fólki með bundið fyrir augun.

Sendiherrann spurði þáttastjórnandann hvort hann hefði komið til héraðsins, það væri af mörgum talið fallegasti staðurinn í Kína. Þá sagði sendiherrann að í öllum löndum þyrfti að færa fanga á milli fangelsa. Þáttastjórnandinn spurði sendiherrann hvað væri að gerast á myndbandinu. Sendiherrann spurði á móti hvaðan myndbandið væri fengið.

Í október 2013 var bíl ekið inn á Torg hins himneska friðar í höfuðborginni Peking. Bíllinn sprakk og þrír sem voru í honum, hjón og móðir annars þeirra, létust auk tveggja sem voru á torginu. Fjörutíu og tveir slösuðust. Fólkið sem var í bílnum var talið vera Úígúrar. Kínversk stjórnvöld lýstu því fljótlega yfir að þetta hefði verið þaulskipulagt hryðjuverk á vegum samtaka sem tengdust Úígúrum. Það er þó umdeilt. Nokkrir sérfræðingar lýstu efasemdum um að svo hefði verið, þeirra á meðal Joanne Smith Finley, lektor í kínverskum fræðum við Newcastle háskóla á Englandi, sem taldi að svo væri ekki, hafi þetta verið viljaverk. Öfgahópur frá Xinjiang lýsti ódæðinu á hendur sér. 

Í febrúar 2017 var gerð hnífaárás á markaði í Xinjiang. Þrír menn réðust á fimm og myrtu. Lögregla skaut árasarmennina til bana á staðnum. Upp úr því fóru fyrst að berast fréttir af endurmenntunarbúðunum. 

Neyða konur í ófrjósemisaðgerðir

„Við misstum hluta af líkama okkar. Við misstum sjálfsmynd okkar sem konur. Við getum aldrei aftur eignast börn. Þeir skáru úr okkur líffærin. Þau eru farin,“ Sagði Zemret Dawut í samtali við AP fréttaveituna í júní á þessu ári. Hún er ein þeirra fjölmörgu kvenna sem hafa verið neyddar í ófrjósemisaðgerð í héraðinu. 

Í umfjöllun AP segir einnig frá Gulnar Omirzakh, Kasaka sem bjó í héraðinu. Eftir að hún eignaðist þriðja barn sitt var getnaðarvörninni lykkjunni komið fyrir í líkama hennar. Það var árið 2016. Tveimur árum síðar bönkuðu fjórir hermenn á dyrnar á heimili hennar, og tilkynntu henni að innan þriggja daga bæri henni að greiða sekt að jafnvirði um 370.000 íslenskra króna, vegna þess að hún átti orðið fleiri en tvö börn. Eiginmaður hennar hafði þegar verið sendur í fangabúðirnar og hennar var hótað að þangað yrði hún send ef hún greiddi ekki. Omirzakh hafði samband við alla sem hún þekkti til að skrapa saman fyrir sektinni. Systir hennar seldi kúna sína og þetta hafðist. Málinu var þó ekki lokið, næsta árið þurfti hún reglulega að sitja kennslustundir fyrir eiginkonur karla í búðunum. Þar fór fram fræðsla um mikilvægi þess að eignast ekki of mörg börn og yfirvöld fylgdust grannt með fjölskyldunni. Þegar eiginmaður hennar var loks látinn laus flýðu þau til Kazakstan. Hún segir að Úígúrar séu dauðhræddir við að eignast börn og að hún fyllist alltaf ótta þegar hún hugsi heim til Xinjiang.  

epa08043040 (FILE) - An ethnic Uighur couple sit outside in a village in Turpan, Xinjiang Uighur Autonomous Province, China, 17 November 2017 (reissued 04 December 2019). The US House of Representatives has passed a bill, called the Uighur Human Rights Policy Act 2019, which calls for targeted sanctions on Chinese government officials.  EPA-EFE/HOW HWEE YOUNG
 Mynd: EPA
Hjón í bænum Turpan í Xinjiang-héraði í Kína.

AP ræddi við fjölda fólks og rýndi í gögn fyrir umfjöllun sína. Þar kemur fram að í borgunum Hotan og Kashgar, sem eru í Xinjiang, og meirihluti íbúa er Úígúrar, hafi fæðingartíðni dregist saman um sextíu prósent frá 2015 til 2018. Bandaríska sjónvarpsstöðin CNN sendi kínverskum yfirvöldum fyrirspurn vegna málsins og fékk þau svör að þetta væri ekki vegna þess að fólk væri neytt til að eignast færri börn heldur eðlileg þróun. 

Hvetja Han-Kínverja til að eignast tvö börn

Á sama tíma er reynt að fá þá Kínverja sem teljast til Han til að eignast tvö börn. Sú stefna var við lýði í Kína frá 1979 til 2015 að hjón máttu aðeins eignast eitt barn. Þá voru ýmsar undanþágur á reglunni, til dæmis mátti fólk í dreifbýli eignast annað barn ef það fyrsta var stúlka. Þá voru ekki takmörk á því hve mjög börn fólk í minnihlutahópum, eins og Úígúrar, máttu eignast. Þannig að á sama tíma og verið er að hvetja Han-fólkið til að eignast fleiri börn er verið að þvinga konur í minnihlutahópum til að nota getnaðarvarnir og til að fara í ófrjósemisaðgerðir.

epa06705968 (02/20) Ethnic Uighur school children walk home from school in Turpan, Xinjiang Uighur Autonomous Province, China, 17 November 2017. Uighurs, a Muslim ethnic minority group in China, make up about 40 percent of the 21.8 million people in Xinjiang, a vast, ethnically divided region that borders Pakistan, Afghanistan, Kazakhstan, Kyrgyzstan and Mongolia. Xinjiang has long been subjected to separatists unrests and violent terrorist attacks blamed by authorities on Islamist extremism while human rights groups say Chinese repression on religious rights, culture and freedom of movement caused undue tensions. Life however goes on under the watchful eye of the government for the ethnic Uighurs living in the city of Urumqi and surrounding areas.  EPA-EFE/HOW HWEE YOUNG  ATTENTION: For the full PHOTO ESSAY text please see Advisory Notice epa06705966
 Mynd: EPA
Börn í bænum Turpan í Xinjiang-héraði í Kína.

Talið er að þær séu mörg hundruð þúsund konurnar sem hafa lent í svo grimmilegum inngripum stjórnvalda. Algengasta ástæða þess að fólk er sent í búðirnar er sú að það á of mörg börn og heyrst hafa frásagnir af því að hermenn gangi hús úr húsi að leita barna. 

Í fangabúðunum er fólk vistað gegn vilja sínum, fólk er handjárnað, sefur allt að tíu saman í litlum klefum. Það eru ekki bara konurnar sem er refsað vegna óhóflegra barneigna, samkvæmt viðmiðum kínverska ríkisins. Feðurnir eru einnig vistaðir í búðunum. Einn þeirra er Abdushukur Umar sem var meðal þeirra fyrstu sem var varpað þangað inn. Hann á sjö börn sem hann sem hann er stoltur af og lítur á sem guðsgjöf. Fyrst var hann sendur í búðirnar en svo dæmdur til sjö ára fangelsisvistar, eitt ár fyrir hvert barn. 
 

Segir fólk þurfa að sannfæra fangaverði um breytta siði

Richardson segir að líklega sé erfitt fyrir fólk í lýðræðisríkjum að gera sér í hugarlund hvernig staðan er í Kína. Fólk sé fangelsað án dóms og laga. Því séu ekki gefnar beinar skýringar. Fólk sé flutt af heimilum sínum, eða úr vinnu og í fangabúðirnar. Þar sé því haldið í daga, vikur og jafnvel mánuði þangað til því tekst að sannfæra verðina þar um að það ætli að hlýða yfirvöldum og hafi afsalað sér sjálfmynd sinni sem Úígúrar. 

En hvað verður um börnin þegar foreldrarnir eru læstir inni í svokölluðum endurmenntunarbúðum? Oftar en ekki eru þau vistuð í svipuðum búðum fyrir börn. Þar er þeim skylt að tala kínversku en ekki sitt eigið tungumál. Talið er að þúsundir barna séu þar inni. Breska ríkisútvarpið tók sextíu viðtöl við Úígúra í Tyrkalandi sem höfðu misst börn sín á slík munaðarleysingaheimili.

Einn þeirra sem BBC ræddi við er Abdurahman Tohti sem hefur ekki séð börn sín í þrjú ár, eða síðan eiginkona hans fór frá Tyrklandi til Kína með börnin í heimsókn til ömmu og afa. Síðan hefur ekkert til þeirra spurst. Það var svo á þessu ári sem hann sá myndband af ungum syni sínum á netinu. Hann virtist vera á munaðarleysingjaheimili og talaði ekki úígúr tungumálið, heldur kínversku. Hann segir til nafns og kveðst vera fjögurra ára.  Þá var barnið spurt hvert væri nafnið á heimalandi hans og drengurinn svaraði Alþýðulýðveldið Kína. 

Það er ekki til mikið af myndefni innan úr þessum fangabúðum og því vakti myndband sem fyrrverandi tískufyrirsæta tók þar í sumar töluverða athygli. Merdan Ghappar er Úígúri sem hafði gert það gott í borginni Foshan í Suður-Kína síðustu ár sem fyrirsæta fyrir þekkt þarlend tískumerki. Hann, eins og aðrir Úígúrar, varð fyrir óréttlæti. Til að mynda gat hann ekki skráð íbúð sem hann keypti sér, á sitt nafn. Hann þurfti því að skrá hana á nafn vinar síns. Árið 2018 var Ghappar handtekinn og gefið að sök að selja kannabis. Hann fékk sextán mánaða dóm. Fjölskylda hans telur þó að sakirnar hafi ekki verið á rökum reistar. Þegar Ghappar var sleppt úr haldi, var hann ekki frjáls lengi því að mánuði síðar bönkuðu lögreglumenn upp á á heimili hans í borginni Foshan, fjarri Xinjiang-héraði og tilkynntu honum að hann þyrfti að snúa heim í Xinjiang-hérað og ganga frá pappírum á lögreglustöðinni. Tveir lögreglumenn fylgdu honum í flugvél til heimaborgarinnar Kucha í Xinjiang. Þegar þangað kom var hann settur í fangelsi og svo í fangabúðir, án dóms og laga.

Honum tókst að taka síma með sér þangað inn og taka upp myndband sem hann sendi fjölskyldu sinni. Hann heldur á símanum með hægri hendi og á myndbandinu sést að vinstri höndin er handjárnuð við rúm. Hann er fölur að sjá og í skítugum fötum. 

Í bakgrunni á myndbandi Ghappar má heyra fræðslu í hátalarakerfi búðanna. Þar segir að Xinjiang-hérað hafi aldrei verið kallað Austur-Túrkistan.  

Fjölskylda hans ákvað að gera myndbandið opinbert til að varpa ljósi á stöðu hans og annarra Úígúra. Þau hafa ekki heyrt frá honum síðan. Frændi hans sem býr í Hollandi hafði gert sér vonir um að áhrifin af því að sýna umheiminum myndbandið yrðu svipuð og af myndbandinu sem sýnir lögreglu í Bandaríkjunum verða George Floyd að bana. Þúsundir mótmæltu lögregluofbeldi um öll Bandaríkin. Frændinn segir að viðbrögðin við myndbandi Ghappar hafi verið vonbrigði, varla neitt nema þögnin ein.

Verða aldrei alveg frjáls

Það fá ekki allir að snúa heim eftir vistina í fangabúðunum. Richardson segir dæmi um að fólk hafi verið sent í þrælkunarvinnu, og í fangelsi. Jafnvel þó að fólk sé látið laust sé það ekki frjálst, segir hún. Mikil löggæsla er í héraðinu og eftirlit með fólki og hömlur á samskiptum. Það sé því enginn í raun frjáls, segir hún. 

epaselect epa08093820 Members of the Uighur community and sympathizers demonstrate on the Dam square in Amsterdam, The Netherlands, 29 December 2019. They are campaigning against what they see as the oppression of the Uighurs in China by the government of that country.  EPA-EFE/REMKO DE WAAL
 Mynd: EPA

Talið er að um áttatíu þúsund manns frá Xinjiang hafi verið send til þrælkunrstarfa í verksmiðjum víðs vegar um Kína. Í verksmiðjum sem mörg af stærstu og þekktustu fyrirtækjum heims versla við. Í sumar tóku hundrað og áttatíu mannréttindasamtök sig saman, þar á meðal Mannréttindavaktin, og sendu frá sér skýrslu um málið og ákall til fyrirtækja að styðja ekki við illa meðferð á fólki með því að eiga í viðskiptum við eigendur verksmiðjanna. Tískukeðjan H&M hætti í haust öllum viðskiptum við verksmiðju í héraðinu þar sem fyrirtækið treysti því ekki að þar væru ekki þrælar við vinnu. 

Richardson bendir á að 80 prósent af allri bómull í Kína sé ræktuð í héraðinu og að sterkar vísbendingar séu um þrælkunarvinnu. Jafnvel stór alþjóðleg fyrirtæki sem hafi viss ítök í landinu hafi viðurkennt að geta ekki gengið úr skugga um að slíkt eigi sér ekki stað í þeim verksmiðjum sem þau versli við. Það sé því aukin meðvitund um brotin.

 

epa06440522 A store of Swedish clothing company "H&M"  (Hennes & Mauritz) in the city center of Bremen, northern Germany, 15 January 2018. H&M has apologized after a widespread outcry over a promotional image that many have called racist.  EPA-EFE/FOCKE STRANGMANN
 Mynd: EPA-EFE - EPA

Viðbrögðin hafa ekki verið eins sterk og mannréttindasamtökin vonuðust til, segir Richardson. Þau vonuðust til að fyrirtækin myndu ýta á að farið yrði eftir viðmiðum um mannréttindi eða íhuga hvort þau geti uppfyllt siðferðislegar skyldur sínar með því að eiga viðskipti við fyrirtæki þar. Þá segir hún að fyrirtæki taki mikla áhættu varðandi orðspor sitt með því að tryggja ekki að eiga aðeins viðskipti við fyrirtæki sem virði mannréttindi. Hún spyr hvaða fyrirtæki vilji vera andlit skelfilegrar kúgunar í Xinjiang, eða græða á slíku. Það eigi enginn að vilja. 

Í skýrslu mannréttindasamtakanna hundrað og áttatíu segir að fólk í verksmiðjunum sé undir stöðugu eftirliti og geti því ekki farið, það fái kennslu í hugmyndafræði og þurfi að láta af trú sinni og menningu.

Í verksmiðjunum er framleitt efni sem svo er sent til verksmiðja í Bangladesh, Kambódíu og Víetnam. Það er notað í föt, húsgögn og andlitsgrímur eins og algengt er að nota nú meðan COVID-19 faraldurinn gengur yfir. Fyrr á árinu birtu mannréttindasamtök lista yfir þau fyrirtæki sem ekki hafa lýst því yfir að þau skipti ekki við verksmiðjur þar sem grunur er um að Úígúrar séu látnir vinna. Richardson hvetur fólk til að lesa listann og bendir á að máttur neytenda sé mikill. 

Mynd með færslu
 Mynd: Arnhildur Hálfdánardóttir
Costco er meðal fyrirtækja á lista mannréttindasamtakanna 180. Einnig er þar að finna Nike og Adidas.
dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir