Þekkilegar værðarvoðir

Mynd með færslu
 Mynd: Myrkvi

Þekkilegar værðarvoðir

14.11.2020 - 14:02

Höfundar

Reflections er fyrsta breiðskífa Myrkva sem er listamannsnafn Magnúsar Thorlacius, og hún er plata vikunnar á Rás 2.

Myrkvi, eða Magnús, gat sér fyrst orðs sem meðlimur í Vio en sveitin atarna vann Músiktilraunir árið 2014. Kári Guðmundsson og Arnar Guðjónsson tóku Reflections upp og Arnar sá líka um hljóðblöndun. Kári spilaði á bassa og slagverk, Arnar Sigurðarson á trommur en önnur hljóðfæri og söngur voru í höndum Myrkva.

En hey, hvað erum við með í höndunum hér? Jú, ég skal segja ykkur það. Þetta er einslags indírokk, smá þjóðlagakennt, vinalegt, aðlaðandi, þægilegt. Og mikið sem þetta hljómar vel, enda nafni Guðjónsson með færustu upptökurum landsins. Platan hljómar eiginlega „erlendis“, stöndugt verk sem gæti farið í Pitchfork eða Mojo vélina eins og hver önnur plata. En þrátt fyrir nýbylgjutaktana, hvar heyra má nútíma indísöngvaskáld situr Myrkvi líka vel í arfinum og þekkir hann greinilega vel. Crosby, Stills, Nash og Young, sígild áttunda áratugs söngvaskáldatónlist, poppað kántrí (John Denver?). Hann þekkir þetta.

„Skyline“, sem opnar plötuna, kallar fram Fleet Foxes, Shins, jafnvel Midlake. Rúllar áfram áreynslulaust og víst kann Magnús að setja saman lög. Svipað er með „Crossroads“, þessi ameríska nýþjóðlagabylgja eða hvað við getum kallað þetta liggur yfir og það þægilega. Gítarpikk er nokk áberandi, eins og í „Change of Scene“. Söngrödd Myrkva er einlæg og nálægt manni í hljóðblönduninni og smekklegum röddunum er bætt við þegar við á. Maður finnur að þessi plata er pælingaplata. „Staldrað við og horft um öxl“ eins og titillinn ber með sér. Þessi hægi hugleiðsluandi liggur þétt í gegnum allt. Það mætti hugsanlega kvarta yfir því að stundum verði platan full værðarleg, lögin renni syfjulega saman í eitt og verði lítt afgerandi þegar á líður. En ég sagði „það mætti“ og ég tek ekki undir þetta persónulega þó ég hafi velt möguleikanum upp. Mér finnst heildarupplifunin einmitt vega þetta upp, stök lög skipta þannig séð minna máli, þetta þægilega rennsli skiptir hins vegar öllu máli.

Þannig er nú það. Heiðarleg plata, í þessum gír sem ég nefni. Fínasta löndun hjá Myrkva. 

Tengdar fréttir

Tónlist

GusGus og Vök í eina sæng

Tónlist

Að beisla eldinn

Tónlist

Skin og skúrir

Tónlist

Framboð og eftirspurn