Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Skilorð fyrir kynferðislega áreitni á þjóðhátíð

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Karlmaður á sjötugsaldri var í gær dæmdur til tveggja mánaða skilorðsbundins fangelsis fyrir að áreita 18 ára gamla konu kynferðislega á þjóðhátíð í Vestmannaeyjum fyrir tveimur árum. Auk þess var honum gert að greiða henni 300 þúsund krónur í miskabætur.

Samkvæmt ákæru átti brotið sér stað á hringtorgi í Herjólfsdal er konan sat þar settist maðurinn hjá henni, reyndi að kyssa hana og stinga fingrum sínum í munn hennar. Að sögn konunnar fraus hún og maðurinn þrýst sér síðan ofan á hana og þuklað á henni.

Að sögn vitna káfaði maðurinn á klofi eða kynfærum konunnar utanklæða sem hafi verið í öngum sínum skömmu eftir atburðinn og sagt þeim að káfað hafi verið á henni.

Fyrir dómi sagði maðurinn að hann hafi verið ofurölvi umrætt kvöld og muna takmarkað eftir atburðum þess. Þó kvaðst hann rekja minni til þess að hafa sest hliðina á konunni en neitaði að hafa brotið á henni. Við skýrslutöku hjá lögreglu bara hann einnig við minnisleysi en viðurkenndi engu að síður að hafa framið verknaðinn.

Héraðsdómur Reykjaness komst að þeirri niðurstöðu að dæma skildi manninn til tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir brotið. Var það metið honum til refsilækkunar hve lengi rannsókn þess dróst. Konan krafðist milljónar króna af manninum í miskabætur en taldi dómurinn 300 þúsund krónur viðunandi upphæð.  Auk þess var honum gert að standa straum af málsvarnarlaunum upp á 750.000 krónur, þóknun réttargæslumanns stúlkunnar upp á 600.000 krónur auk 75.000 króna í annan sakarkostnað.

thorvardurp's picture
Þorvarður Pálsson
Fréttastofa RÚV