Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Raforkuverð til stóriðju skerðir ekki samkeppnisstöðu

14.11.2020 - 08:05
Mynd með færslu
 Mynd:
Raforkukostnaður stórnotenda skerðir almennt ekki samkeppnishæfni þeirra gagnvart samanburðarlöndum. Þetta kemur meðal annars fram í úttekt þýska rannsóknarstofnunarinnar Fraunhofer á samkeppnishæfni íslenskrar stóriðju með tilliti til raforkukostnaðar.

Skýrslan var unnin að beiðni atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins. Í henni var gerð úttekt á samkeppnishæfni stóriðju á Íslandi með tilliti til raforkukostnaðar.

Meginniðurstaðan er að raforkukostnaður stórnotenda á Íslandi skerði almennt ekki samkeppnishæfni þeirra gagnvart samanburðarlöndunum, sem eru Noregur, Kanada (Quebec) og Þýskaland. Raforkuverð á Íslandi sé misjafnt eftir iðnaði og einstaka samningum, en standi ekki samkeppnishæfni orkufreks iðnaðar fyrir þrifum. Þó sé svigrúm til úrbóta á ýmsum sviðum, til að mynda hjá hinu opinbera á sviði skattamála og í opinberri gjaldtöku, ívilnunum styrkjum til rannsókna og þróunar. Það hafi áhrif á samkeppnishæfni fyrirtækjanna. 

Allir veittu aðgang nema einn

Ekki hefur áður verið gerð sambærileg óháð úttekt á samkeppnishæfni stóriðju á Íslandi. Fraunhofer fékk við gerð skýrslunnar aðgang að trúnaðarupplýsingum um raforkusamninga orkuframleiðenda og stórnotenda á Íslandi. Langflestir aðilar sem leitað var til veittu aðgang að umbeðnum upplýsingum og allir stórnotendur utan einn veittu upplýsingar um raforkuverð sitt. Ekki hafa fengist uppgefið hvaða fyrirtæki neitaði að gefa þær upplýsingar en samkvæmt ráðuneytinu voru fyrirtækin í fullum rétti til að neita þátttöku. Það hafi hins vegar ekki skekkt niðurstöðuna. 

Samál, samtök álframleiðenda segir í tilkynningu að ekki sé tekin afstaða til þess orkuverðs sem býðst í dag og að óvissu er lýst um samkeppnisstöðu til framtíðar.

„Niðurstaða skýrslunnar virðist vera að meðalorkuverð til orkusækins iðnaðar hafi almennt verið samkeppnishæft hér á landi, en tekið er fram að það eigi þó ekki við um alla samninga. Í því felst að sumir samningar geti ekki talist samkeppnishæfir og er það áhyggjuefni. Samál bendir á að Landsvirkjun hefur gefið út að fyrirtækið sé bundið „kostnaðarverði“, en í því er m.a. tekið tilllit til 7,5% arðsemiskröfu ríkisins.“ segir í tilkynningunni.

Jöklarnir virka eins og risa rafhlöður

Í kafla skýrslunar sem fjallar um raforkumarkað landanna segir að markaðurinn á Íslandi sé frábrugðinn hinum löndunum þremur þar sem raforkuframleiðsla hér sé háð náttúruöflum og framleiðendur raforku þurfi að leggja út í meiri fjárfestingu og minni rekstrarkostnað en þegar rafmagn er framleitt með jarðefnaeldsneyti. Þá hafi veðurfar minni áhrif á raforkuframleiðslu hér á landi en í samanburðarlöndunum þar sem stór hluti vatnsfalla sem virkjuð eru eru jökulvötn. Þá sé landið einangrað sem geri það að verkum að raforka er ekki seld út fyrir landsteinana. 

Þá er bent á að traust gagnvart raforkumarkaðnum myndi aukast ef gagnsæi yrði aukið um verð og magn keyptrar raforku frá stórnotendum af framleiðendum. Bæði Norðurál og Landsvirkjun létu í ljós þá skoðun sína í tilkynningum í dag að birta ætti upplýsingar um raforkuverð og aflétta trúnaði yfir þeim upplýsingum.

Íslensk álver orkufrekari en önnur

Yfir 80 prósent þeirrar raforku sem er framleidd hér á landi fer til stórnotenda. Alcoa og Rio Tinto fá stærstan hluta raforkunar, eða um 8000 gígavattstundir. Þau fyrirtæki eru einnig með samninga við Landsvikjun sem gilda lengst. Raforkusamningur Alcoa við Landsvikjun gildir til ársins 2048 og samningur Rio Tinto til ársins 2036. 

Bent er á að álver hér á landi séu orkufrekari en álver í öðrum löndum. Það stafi fyrst og fremst af því að þau búa ekki yfir nýjustu tækni og búnaði. Orkunýtingin sé til að mynda betri  í álverum í Noregi.  Aftur á móti hafi kalt loftslag góð kælingaráhrif á gagnaver. Þau spari þar af leiðandi raforku sem færi í að kæla búnað.  

Skýrsluna má lesa hér.