Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Óttar segir Arnarholtsmálið „hörmulegt“

14.11.2020 - 14:54
Mynd: RÚV / RÚV
Mál vistheimilsins Arnarholts er hörmulegt að sögn Óttars Guðmundssonar geðlæknis. Hann segir enga ástæðu til að efast um réttmæti lýsinga af Arnarholti. Ítrekað hafi verið bent á slæman aðbúnað þar og stofnunin alla tíð verið illa skilgreind.

Þetta var ekki heilbrigðisstofnun heldur þurfamannahæli. Þarna ægði saman alls konar fólki, þarna voru krónískir geðsjúklingar, þarna var fólk sem var semsé með þroskahömlun og bara fólk sem var til vandræða eða var fyrir í samfélaginu.

Hann segir að Arnarholt hafi ekki verið neitt einsdæmi í Evrópu. Sambærileg dæmi megi finna víðar um álfuna er mannfjöldi jókst í borgum, „þegar borgirnar fara að vaxa, þá er að losa borgirnar við, svona, þessa óæskilegu einstaklinga.“

Óttar hóf störf á Kleppsspítala árið 1967 og hafði þar annan fótinn í mörg ár á eftir.

Ég kannast ekki við að þessar lýsingar, að þær komi heim og saman við þá reynslu sem ég hafði af Kleppsspítala á þessum árum, eins og ég segi ekki í neinum takt við alla veganna þær geðlækningar sem þá voru stundaðar á Kleppi.

Hvað varðar læknana sem lögðu mat á starfsemi heimilisins snemma á áttunda áratugnum segist Óttar hafa þekkt þá alla og niðurstaða þeirra, að halda rekstri Arnarholts áfram, komi honum á óvart.

Þetta voru ekki einhverjir taglhnýtingar íhaldsins í borgarstjórn, alls ekki, þetta voru Árni Björnsson lýtalæknir, Gunnlaugur Snædal kvensjúkdómalæknir og Halldór Steinsen sem var lengi lyflæknir á Landakoti. Þetta voru allt menn sem ég þekkti vel persónulega og efast ekkert um hæfni þeirra til þess að gera þessa skýrslu þannig að mér kemur þetta dálítið á óvart.