Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Kvóti á ferðamenn í Vatnajökulsþjóðgarði

Mynd: Rúnar Snær Reynisson / RÚV
Ferðamannakvóti verður hér eftir settur á fyrirtæki sem vilja fara með ferðamenn í Vatnajökulsþjóðgarð. Þetta er gert til að auka öryggi og minnka álag. Framkvæmdastjóri garðsins segir að langflest fyrirtækin séu sátt við þetta fyrirkomulag.

Vatnajökulsþjóðgarður er stór þjóðgarður sem nær yfir allan Vatnajökul og nágrenni hans. Á síðustu árum hefur mikill fjöldi ferðamanna heimsótt þjóðgarðinn, enda fjölmargar náttúruperlur innan hans. Mörg fyrirtæki fara með ferðamenn um svæðið og hafa hingað til mátt fara með nokkurn veginn eins marga ferðamenn og þau hafa getað. Nú hefur þjóðgarðurinn hins vegar hafið vinnu við gerð samninga við fyrirtækin, og úthlutað þeim eins konar kvóta, sem þýðir að þau mega aðeins fara með ákveðið marga ferðamenn á ákveðna staði í garðinum á hverjum degi. Þetta er gert til að draga úr álagi, tryggja öryggi ferðamanna og til að þeir geti notið ferðarinnar betur. betur öryggi og upplifun ferðamanna.

„Til dæmis á suðursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs, þá auglýstum við eftir þeim sem vildu stunda íshellaferðir og jöklagöngur. Í boði voru 3.300 ferðamenn á dag. Það voru mörkin sem voru talin henta fyrir það svæði til að skerða ekki upplifun ferðamanna og til að tryggja öryggi þeirra,“ segir Magnús Guðmundsson, framkvæmdastjóri Vatnajökulsþjóðgarðs.

Sóttu mörg fyrirtæki um?

„Það voru 27 fyrirtæki sem sóttu um. Það fengu allir úthlutað en auðvitað ekki allt sem þeir vildu.“

Hefðu viljað meira

Magnús segir að þau fyrirtæki sem báðu um fáa ferðamenn hafi fengið nánast allt sem þau sóttu um, en svo hafi skerðingin orðið meiri eftir því sem fyrirtækin óskuðu eftir fleiri ferðamönnum. Flest fyrirtækin séu á svæðinu, en fyrirtæki frá öðrum svæðum eigi jafnmikla möguleika á að fá úthlutað, enda sé óheimilt að mismuna þeim eftir heimilisfesti. Þá segir Magnús að horft sé til reynslu fyrirtækjanna í ferlinu, enda sé meðal annars gerð krafa um menntun og ákveðna reynslu leiðsögumanna.

Eru fyrirtækin sátt við þetta fyrirkomulag?

„Langflest eru sátt. Það eru örfá sem hefðu viljað fá meira og telja að við hefðum getað notað aðra reglu við að úthluta. En langflest eru sátt og við erum þegar farin að tala við fyrirtækin um hvernig við getum lagfært ferlið fyrir næstu umsókn,“ segir Magnús.

Samningarnir voru gerðir til eins árs til að byrja með en verða líklega til lengri tíma í framtíðinni. Hvert fyrirtæki greiðir garðinum 50 þúsund krónur fyrir samninginn. Í framtíðinni er hugsanlegt að fyrirtækjunum verði gert að greiða gjald fyrir hvern ferðamann en Magnús segir að ákveðið hafi verið að gera það ekki núna, vegna faraldursins.

johann's picture
Jóhann Bjarni Kolbeinsson
Fréttastofa RÚV