Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Jól í skókassa gengið framar vonum í breyttum aðstæðum

14.11.2020 - 16:01
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Guðmundur Bergkvist
Verkefnið jól í skókassa hefur verið stór hluti af undirbúningi jólanna hjá mörgum hér á landi síðustu ár, en KFUM og K tók í dag við síðustu gjöfunum sem ætlaðar eru bágstöddum börnum í Úkraínu. Heimsfaraldurinn hefur sett svip sinn á verkefnið í ár.

„Það hefur oft verið stjórfjölskyldurnar sem hafa verið saman að gera þetta, eða skólahópar eða vinnufélagar og svona. Það eiginlega datt upp fyrir, svo þetta er meira svona litla fjölskyldueiningin. Einn og einn skóli og leikskóli eru að taka þátt. En stemningin og hópamyndunin hefur ekki getað blómstrað í ár,“ segir segir Mjöll Þórarinsdóttir, einn sjálfboðaliða jóla í skókassa, sem einnig hafa þurft að aðlaga sína vinnu breyttum aðstæðum.

„Við urðum að setja á þrjár vaktir og láta þær rúlla með tíu manna hámark í húsi. En það er hægt að leysa öll mál og þetta hefur bara gengið ótrúlega vel, og framar vonum miðað við allt saman.“

Hún segist vonast til að fjögur þúsund skókassar safnist í ár, en um 4.500 kassar hafa að jafnaði verið sendir til Úkraínu fyrir hver jól.

„Það er mikið atvinnuleysi á þessu svæði og mikil fátækt, langveik og munaðarlaus börn. Þetta er að fara á munaðarleysingjaheimili og til langveikra barna og barna einstæðra foreldra.“

Sjálf er Mjöll að taka þátt í þrettánda sinn, og segir það ómissandi hluta af jólaundirbúningnum.

„Já, algjörlega. Það er ekkert haust og engin jól án jóla í skókassa,“ segir Mjöll Þórarinsdóttir.

Mynd með færslu
 Mynd: KFUM og KFUK
Mjöll Þórarinsdóttir fór færandi hendi til Úkraínu í janúar 2018.
andriyv's picture
Andri Yrkill Valsson
Fréttastofa RÚV