Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

„Er ekki tími til að þau gangi bara hreint til verks“

Mynd: RÚV - Samsett / RÚV - Samsett
Upplýsingafulltrúi Íslenskrar erfðagreiningar furðar sig á því að þeir þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem hvað harðast ganga fram í gagnrýni á sóttvarnaaðgerðir, komi ekki fram með aðrar lausnir. 

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir, upplýsingafulltrúi Íslenskrar erfðagreiningar, setti spurningamerki við gagnrýni á sóttvarnaaðgerðir í Vikulokunum á Rás eitt í morgun, en áhyggjur um hversu mikið frelsi borgaranna hefur verið skert í faraldrinum hafa einna helst komið fram frá Sjálfstæðisflokknum. 

Sigríður Andersen þingmaður hefur til dæmis sagt að hún telji inngripið í friðhelgi einkalífsins of mikið. Hún sagði á Alþingi í síðustu viku að aðgerðir stjórnvalda væru svo víðtækar og mikið inngrip í friðhelgi einkalífsins að annað eins þekktist ekki í Íslandssögunni allri.

Annar þingmaður Sjálfstæðisflokksins, Brynjar Níelsson, hefur talað á svipuðum nótum. Hann segist sannfærður um að heimurinn hafi meira og minna farið ranga leið og sitji hugsanlega uppi með meira tjón en forðast á með sóttvarnaaðgerðum vegna COVID-19. Hann vill að sóttvarnaaðgerðir beinist fyrst og fremst að þeim sem eru í áhættuhópum en kveðst ekki kaupa tölur heilbrigðisyfirvalda um að það sé um fimmtungur þjóðarinnar.

Spurði hvort stéttir á lúsarlaunum ættu að missa öll réttindi

Þóra Kristín sagðist skilja gagnrýnisraddir, og vissulega væri verið að skerða réttindi borgara meira en hefur þekkst áður, en hins vegar væri verið að takast á við faraldur með bestu vitund og þekkingu.

Hún furðar sig á þeim tillögum að áhættuhópar verði stúkaðir sérstaklega af og að þeir séu þannig verndaðir.

„Hvar á að stúka þá af? Hver á að hugsa um þetta fólk? Ætla þau að dæma fólkið sem fær lúsarlaun fyrir sitt framlag til heilbrigðisþjónustunnar, til dæmis þessar umönnunarstéttir. Eiga þær að missa öll mannréttindi á meðan þessi faraldur gengur yfir? Á að loka þá bara inni á stofnunum með þessu fólki? Það er enginn einföld lausn við þessu,“ sagði Þóra Kristín.

Hún sagði furðulegt að þingmennirnir kæmu fram með gagnrýni án þess að benda á raunverulegar tillögur til lausna.

„Hvað eru þau eiginlega að leggja til? Er ekki kominn tími til að þau gangi bara hreint til verks og segi það. Ef Brynjar og Sigríður eru að stinga upp á því að þessum hópum sem eru veikastir fyrir verði fleygt fyrir ætternisstapa, þá eiga þau bara að koma fram og segja það,“ sagði Þóra Kristín Ásgeirsdóttir í Vikulokunum.