Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

42 fórust á Filippseyjum og þúsundir enn í vanda

14.11.2020 - 04:09
epa08817016 A crowd of stranded motorists ride a boat on a flooded road in the aftermath of Typhoon Vamco in the town of Lopez, Quezon province, Philippines, 13 November 2020. According to reports, the death toll rose to at least 26 as Typhoon Vamco caused floods in Metro Manila, neighboring provinces and parts of the Bicol region after making landfall in the southern Luzon region.  EPA-EFE/FRANCIS R. MALASIG
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Minnst 42 létu lífið þegar fellibylurinn Vamco gekk yfir Filippseyjar í vikunni og björgunarstörfum er langt í frá lokið. Strandgæsla, her, slökkvilið og aðrir viðbragðsaðilar keppast enn við að bjarga þúsundum íbúa Kagajan-héraðs á norðurodda Luzoneyju, sem komast hvorki lönd né strönd vegna flóða í kjölfar fellibylsins. Wamco var þriðji fellibylurinn sem skall á Filippseyjum á þremur vikum, en sá 21. og jafnframt sá mannskæðasti á árinu.

Þótt veðurhæðin hafi verið nokkru minni en í fyrri byljum var úrhellið sem fylgdi Wamco þeim mun meira og tugir bæja í Kagajanhéraði mara enn í hálfu kafi. Um 14.000 manns í héraðinu hafast enn við í neyðarskýlum og á fjórða hundrað þúsund urðu fyrir skakkaföllum í ofviðrinu í þessu héraði einu.

Strandgæslan sendi í morgun björgunarlið á gúmbátum til nokkurra borga og bæja í Kagajan til að sækja fjölda fólks sem heldur enn til uppi á húsþökum, þremur dögum eftir að það neyddist til að flýja þangað vegna flóða. Borgarstjórinn í héraðshöfuðborginni Tuguegarao segir að það líði að líkindum vika áður en flóðin þar í borg ná að sjatna að fullu, að því gefnu að ekki byrji að rigna á ný.