Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Vill að ríkið geri loðdýrabændum kleift að hætta

13.11.2020 - 21:32
Mynd með færslu
 Mynd:
Ágúst Ólafur Ágústsson þingmaður Samfylkingarinnar vill að hið opinbera geri loðdýrabændum kleift að hætta með styrk. Þeim hafi fækkað mjög undanfarin ár og einungis níu minkabú séu nú starfrækt hér á landi, þar sem færri en þrjátíu manns starfi.

Hann sagði á Alþingi í dag að ræktun minka vegna skinna sé algjör tímaskekkja að hans mati og samræmist ekki dýravernd. Þá valdi fréttir af stökkbreyttu afbrigði kórónuveirunnar í dönskum minkum miklum áhyggjum.

„Ég legg því til að hið opinbera geri nú þeim fáu loðdýrabændum sem eftir eru kleift að hætta starfsemi sinni með styrk. Norðmenn hafa ákveðið að banna þessa ræktun frá og með árinu 2025 og mörg önnur lönd í Evrópu hafa nú þegar bannað þessa ræktun. Hvar er annars háttvirtur umhverfisráðherra í þessari umræðu, veit einhver afstöðu hans til þessarar ræktunar?“ spurði Ágúst Ólafur.

„Mér finnst umhverfismál ekki einungis að snúast um grjót og urð heldur einnig um dýr, á það hefur svo sannarlega vantað hér á landi. Hættum því loðdýrarækt á Íslandi, herra forseti, pelsar eru ekki nauðsynjavara,“ sagði hann á Alþingi í dag.