Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

„Verður örugglega sárt restina af ævi okkar“

epa08816774 Gylfi Sigurdsson (C) of Iceland reacts in front of celebrating Hungarian players after his team lost 2-1 in the soccer UEFA EURO 2020 qualification play-off match Hungary vs. Iceland in Puskas Arena in Budapest, Hungary, 12 November 2020.  EPA-EFE/Tibor Illyes HUNGARY OUT
 Mynd: EPA-EFE - MTI

„Verður örugglega sárt restina af ævi okkar“

13.11.2020 - 12:41
Aðstoðarþjálfari íslenska karlalandsliðsins, Freyr Alexandersson, segir tapið gegn Ungverjum í gær muni verða sárt það sem eftir er. Liðið sleikji nú sárin og þurfi að ná upp andlegri heilsu fyrir næstu leiki.

Íþróttadeild RÚV náði í Frey skömmu eftir æfingu liðsins í hádeginu. „Við erum lítið búnir að ná að melta þetta það er stutt síðan þetta kláraðist er en þetta er bara eins og við sögðum fyrir leikinn. Bæði þjálfarar og leikmenn; að á ögurstundu snýst þetta um smáatriði og að gera ekki mistök. Það er hægt að sjá mörg atvik sem eru ef og hefði, ef við hefðum skorað úr færunum okkar þá hefðum við ekki fallið jafn djúpt og raun bar vitni sem orsakar síðan mistök sem gefa þeim jöfnunarmarkið,“ segir Freyr. Hvað gerist nákvæmlega sé erfitt að lýsa en ýmislegt samverkandi valdi þessari niðurstöðu.

„Svona er bara þessi leikur, á hæsta leveli þá snýst þetta um smáatriði sem snúa að leikjum,“ segir Freyr.

Þurfa að ýta þessu til hliðar

Hópnum er skipt í tvennt eftir leiki, þar sem þeir sem byrja eru í endurheimt. „Þeir [byrjunarliðið] voru hérna á hótelinu að sleikja sárin og að reyna að ná líkamlegri og andlegri heilsu upp. Ég var úti á velli með þá sem voru ferskir og við töluðum bara vel saman um að við verðum að gera okkur grein fyrir því að þetta verður sárt og þetta verður örugglega sárt restina af ævi okkar.“

„En við þurfum að ýta þessu til hliðar, við erum að fara spila tvo leiki annars vegar við heitasta lið Evrópu liggur við, Danmörku, og svo England á Wembley og við þurfum bara að vera í standi. Og þetta lið það þarf að klára þessa vegferð eins og þessu liði er sæmandi og það er með stolti fyrir að spila fyrir Íslands hönd og allt sem hefur einkennt þetta lið og það mun taka á,“ segir Freyr.

Ísland mætir Danmörku á sunnudagskvöld og Englandi á miðvikudag. „Við munum rótera liðinu mikið í þessum tveimur leikjum. Við þurfum að hafa eins hátt orkustig og kostur er á í þessum tveimur leikjum og svo þurfum við að ná andlegri heilsu, það er lykilatriði að finna hungrið og viljann til að vera í standi í þessum leikjum. Við þurfum að hjálpast að, við vinnum sem lið og við töpum sem lið og nú þurfum við að sleikja sárin saman og þétta raðirnar og sýna úr hverju við erum gerðir á næsta sólarhringnum,“ segir Freyr.

Framtíðin hefst í dag

„Ég er búinn að vera í kringum þetta lið í fimm ár og þetta eru  sennilega fimm erfiðustu dagar sem ég hef upplifað með þessu liði en mjög mikilvægir og við gerum okkur grein fyrir því að það er mjög stutt í næstu undankeppni, undankeppni HM í mars. Sú keppni klárast bara á átta mánuðum þannig við þurfum bara að átta okkur á því að við þurfum á skerpa á okkur og vera í standi fyrir nánustu framtíð og hún hefst bara í dag,“ segir Freyr.

 

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV
Freyr Alexandersson