Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Telur hægar tilslakanir hafa veruleg áhrif á atvinnulíf

13.11.2020 - 14:08
Mynd með færslu
 Mynd: Hulda Geirsdóttir - rúv
Hætt er við því að þær tilslakanir á sóttvarnaaðgerðum sem kynntar voru í dag hafi afgerandi áhrif á starfsemi verslunarfyrirtækja nú þegar háannatíminn í atvinnugreininni er að renna upp.

Þetta segir Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, í samtali við fréttastofu. Hann lýsir yfir miklum vonbrigðum með þær hægu tilslakanir sem Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra kynnti í hádeginu.

Samkvæmt nýjum reglum, sem taka gildi 18. nóvember, er starfsemi einyrkja á borð við hárgreiðslustofa og nuddstofa leyft að opna á ný, íþróttir barna og ungmenna verða heimilaðar og reynt að opna meira inn í framhaldsskóla landsins. Áfram gilda hins vegar 10 manna samkomutakmarkanir og tveggja metra regla.

Andrés segir að ekki sé samræmi í þessum aðgerðum. Fleiri en tíu mega koma saman í apótekum og matvöruverslunum sem selja nauðsynjavöru, en ekki í stærstu verslunarhúsnæðum landsins. Það stefni því í biðraðir fyrir framan margar verslanir, þar sem erfitt sé að tryggja sóttvarnir. Þar sé mikil smithætta enda sé það ekki á ábyrgð rekstraraðila að framfylgja sóttvörnum í röðum.

„Áhrifin sem þessar aðgerðir hafa á okkur og fyrirtæki í verslunum og þjónustu eru ófyrirséðar. En öll frekari röskun á starfsemi atvinnulífsins mun hafa bein áhrif á skatttekjur ríkissjóðs. Þetta hefur letjandi áhrif á viðskipti fólks, og bein áhrif á skatttekjur í ríkiskassan,“ segir Andrés.

Mynd með færslu
 Mynd:
Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu.