Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Sýknuðu sálfræðing af ákæru um brot gegn stjúpdóttur

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Landsréttur sýknaði í dag sálfræðing af ákæru um meint kynferðisbrot gegn stjúpdóttur sinni árið 2017 þar sem ekki þótti sannað að þau hefðu átt sér stað og hann ávallt neitað staðfastlega. Maðurinn hafði verið dæmdur til tveggja og hálfs árs fangelsisvistar af Héraðsdómi Reykjaness árið 2019.

Í dómi Landsréttar segir að „í ákæru að maðurinn hafi nýtt sér yfirburði sína gagnvart brotaþola og traust hennar og trúnað til hans „en ákærði klóraði og/eða strauk henni á baki og bringu innanklæða, á innanverðum lærum og aftanverðum lærum allt niður á kálfa utanklæða, fór með hendi undir buxur hennar og klóraði og/eða strauk rass hennar og setti fingur inn í endaþarm hennar, þannig að fingur hans og nærbuxur hennar fóru inn í endaþarminn og strauk með fingri yfir endaþarm hennar, kyssti hana blautum  kossum  á  enni, kinn  og  á  læri,  og  lá  síðan  þétt  upp  að  henni  svo  hún  fann fyrir kynfærum hans við rassinn“. Þetta var talið varða við 1. mgr. 194. gr. og 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Samkvæmt dómi Héraðsdóms Reykjaness þótti framburður stúlkunnar trúverðugur og studdur af framburði annarra vitna, þar á meðal syni mannsins sem starfaði áður á velferðarsviði Reykjavíkurborgar.

Landsréttur komst hins vegar að þeirri niðurstöðu að þar sem breytingar hefðu átt sér stað milli skýrslutöku af stúlkunni í Barnahúsi teldist hann ekki stöðugur. Auk þess hefðu atburðir átt sér stað á þeim tíma sem leið milli skýrslugjafanna  sem vörpuðu rýrð á trúverðugleika hans. Enn fremur væri framburður sonar mannsins ekki sérstakur stuðningur við framburð stúlkunnar.

Landsréttur mat það svo að staðfastleg og stöðug neitun hans á sakargiftum, andspænis þess óstöðugleika sem í framburði stúlkunnar voru, fæli í sér að ákæruvaldinu hafi ekki tekist að færa sönnur á að maðurinn hafi gerst sekur um þá háttsemi sem lýst var í ákæru. Var hann því sýknaður og einkaréttarkrafa gegn honum felld niður.

 

 

thorvardurp's picture
Þorvarður Pálsson
Fréttastofa RÚV