Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Spá efnahagsbata á næsta ári

Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar Visage - RÚV
Alþjóðlega matsfyrirtækið S&P Global Ratings hefur staðfest lánshæfiseinkunnir ríkissjóðs Íslands með stöðugum horfum, að því er segir í fréttatilkynningu frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu í kvöld.

Þar segir að samkvæmt úttekt S&P er reiknað með efnahagsbata á næsta ári eftir 7,8% samdrátt hagkerfisins á þessu ári. Fyrirtækið spáir að afgangur verði á viðskiptajöfnuði næstu árin, þrátt fyrir að ferðaþjónustan hafi orðið fyrir verulegu höggi. Þá er búist við að stjórnvöldum takist að rétta af opinber fjármál eftir 2021, þrátt fyrir stuðning við hagkerfið vegna áhrifa faraldursins.

Ráðuneytið vísar í fréttatilkynningu frá S&P, þar sem segir að lánshæfismat ríkissjóðs gæti hækkað ef efnahagsbatinn frá heimsfaraldrinum verði umfram væntingar og skapi aukna fjölbreytni í íslensku efnahagslífi og útflutningi. Þannig myndi draga úr sveiflum á viðskiptakjörum og viðsnúningur ríkisfjármála gæti þannig orðið hraðari.

Lánshæfismatið gæti hins vegar lækkað ef heimsfaraldurinn veldur varanlegra tjóni á framleiðslugetu hagkerfisins en búist er við. Það gæti leitt til hækkunar opinberra skulda.