Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Skipstjórinn afar ósáttur við sjópróf vegna hópsýkingar

Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RÚV
Sjópróf fer fram í máli skipverjanna á togaranum Júlíusi Geirmundssyni á Ísafirði 23. nóvember, en þetta var ákveðið í þingfestingu málsins í Héraðsdómi Reykjaness í dag. Skipstjórinn gagnrýnir áform um sjópróf harðlega og segir stéttarfélag sjómanna standa fyrir opinberri auðmýkingu í sinn garð.

Fimm stéttarfélög fóru fram á sjópróf í máli félagsmanna sinna eftir að COVID-19 hópsýking varð um borð í togaranum. Sjópróf er vitnaleiðsla fyrir dómi til að leiða í ljós atburðarás atvika á skipum, en fyrir dómi í dag tókust lögmenn á um tilgang sjóprófsins.

Verjandi Hraðfrystihússins Gunnvarar velti því fyrir sér á hvaða grundvelli stéttarfélögin fari fram á sjópróf, þar sem fyrir liggur að lögregla sé búin að taka skýrslu af skipverjum. Lögreglan á Vestfjörðum er með málið til rannsóknar.

Dómarinn með afrit af skipsdagbókinni

Lögmaður stéttarfélaganna sem fara fram á sjóprófið óskaði eftir því að fá afrit af skipsdagbók togarans. Það er nokkurs konar grunngagn sem leitað er fanga í komi eitthvað fyrir úti á sjó. 

Verjandi framkvæmdastjóra frystihússins lét dómara málsins hafa afrit af dagbókinni og ætlar dómarinn að meta það um helgina hvort stéttarfélögin fái það afrit. Verjandinn lagði áherslu á að hver starfsmaður hafi val um það hvort upplýsingar um sín veikindi verði gerð opinber eða ekki.

Verjandi skipstjórans lagði svo fram yfirlýsingu fyrir dómnum þar sem fram kemur að hann ætli ekki að gefa skýrslu í fyrirhuguðu sjóprófi. Fréttastofa hefur yfirlýsinguna undir höndum, en þar gagnrýnir skipstjórinn harðlega það sem hann kallar sýndarréttarhöld.

„Ég frábið mér sýndarréttarhöld“

Í yfirlýsingunni segir að það hafi verið skipstjóranum þungbært að komast að því að kórónuveirusmit hafi komið upp um borð og að hann hafi setið undir því að hafa viljandi stofnað áhöfninni í hættu eða neytt veika menn til að vinna.

„Fram hafa komið þungar ásakanir í minn garð og kærur, m.a. frá mínu eigin verkalýðsfélagi. Er þungbært að sitja undir slíkum ásökunum,“ segir í yfirlýsingunni þar sem er undirstrikað að lögreglan hafi fengið allar þær upplýsingar sem hún óskaði eftir við rannsókn málsins. Skipstjórinn segir að hann bíði nú sem sakaður maður eftir niðurstöðu lögreglurannsóknarinnar, á sama tíma og verkalýðsfélögin fara fram á sjópróf.

„Ætla þau að halda opinber réttarhöld yfir mér þar sem leiða á sannleikann í ljós og opinberlega smána mig. Ekki þarf að spyrja að því hvernig sá dómur verður, enda hafa þau þegar fellt hann. Ég frábið mér sýndarréttarhöld og opinberlega auðmýkingu í boði stéttarfélags míns og mun ekki taka þátt í þeim,“ segir í yfirlýsingunni, þar sem skipstjórinn ítrekar vilja til samtals til að bæta öryggi sjómanna. En ekki með þessum hætti.