Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Raforkuverð skerðir ekki samkeppnisstöðu

13.11.2020 - 14:03
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Þýska fyrirtækið Fraunhofer hefur lokið úttekt á samkeppnishæfni stóriðju á Íslandi hvað varðar raforkuverð. Helsta niðurstaðan er að verðið skerði almennt ekki samkeppnishæfni gagnvart samanburðarlöndunum. Norðurál óskar eftir því að trúnaði um orkusamninga verði aflétt.

Fraunhofer fékk við gerð skýrslunnar aðgang að trúnaðarupplýsingum um raforkusamninga til stórnotenda á Íslandi sem gerð var að ósk atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins. Þetta er fyrsta óháða úttekt á samkeppnishæfni stóriðju á Íslandi, að sögn ráðuneytisins. Þau lönd sem voru til samanburðar eru Noregur, Þýskaland og Kanada (Quebec). Þess má geta að öll álver hér á landi voru rekin með tapi í fyrra.

Allir stórnotendur, utan eins sem leitað var til, veittu aðgang að upplýsingum um raforkuverð sitt að gefnum trúnaði um gögnin með aðstoð Samkeppniseftirlitsins. Ráðuneytið segir vandasamt að greina frá niðurstöðum skýrslunnar án þess að fara gegn umræddum trúnaði. Haft var samráð við alla sem afhentu slík gögn við gerð skýrslunnar sem settu fram athugasemdir við hvernig þau væru framsett og tillit tekið til þeirra.

Helstu niðurstöður

  • Raforkukostnaður stórnotenda er misjafn eftir atvinnugreinum og tegund orkusamninga. Engu að síður skerðir raforkukostnaður stóriðju almennt ekki samkeppnishæfni. Kostnaður álvera á Íslandi er að mestu samkeppnishæfur við Kanada og Noreg og lægri en í Þýskalandi.
  • Gagnaver greiða um þrisvar sinnum lægra verð fyrir orku en í Þýskalandi, svipað og í Noregi og talsvert meira en í Kanada.
  • Kostnaður annarra stórnotenda á heildina litið umtalsvert lægri en í Þýskalandi en ívið hærri en í Noregi og Kanada þó fá dæmi takmarki þann samanburð.
Mynd með færslu
 Mynd: RUV
Álver Norðuráls á Grundartanga.

Viðbrögð við skýrslunni

„Þessi úttekt er þýðingarmikið og upplýsandi innlegg í umræðu sem snertir stórfellda hagsmuni fyrir bæði íslenskt efnahagslíf, íslensk fyrirtæki og einstök byggðarlög,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.

Líkt og áður kom fram telur Norðurál tímabært að trúnaður ríki ekki lengi um raforkuverð til stórnotenda. Skýrslan sé „um margt góð og fagnar því að iðnaðarráðherra skuli hafa tekið það skref að láta óháðan aðila meta samkeppnishæfni stóriðju á Íslandi, með tilliti til raforkuverðs. Stóriðja er ein af grunnstoðum íslensks atvinnulífs og er háð samkeppnishæfu raforkuverði“, að því segir í tilkynningu frá fyrirtækinu.

Skýrslan staðfesti ábendingar þess um samkeppnishæfni meðalverðs raforku sem og raforkuverð hér sé er ekki samkeppnishæft við Noreg og Kanada.

„Þessi niðurstaða staðfestir það sem við hjá Landsvirkjun höfum talið okkur vita, að við bjóðum grænu orkuna okkar á samkeppnishæfu verði. Það er gott að fá það staðfest af sérfróðum, óháðum aðila,“ segir Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar í yfirlýsingu frá fyrirtækinu. Vilji hafi verið af hálfu þess til að opinbera upplýsingar um raforkuverð.

“Það er áhyggjuefni að á undanförnum mánuðum hafa fyrirtæki í orkusæknum iðnaði og jafnvel orkufyrirtæki stigið fram og lýst því yfir að orkuverð til stóriðju sé ekki samkeppnishæft á Íslandi. Afkomutölur hafa verið neikvæðar og fyrirtæki starfa ekki á fullum afköstum. Ljóst má vera að vandinn er djúpstæðari en svo að upphafið megi rekja til Covid-19, þó að víst hafi heimsfaraldurinn dýpkað hann enn frekar“, segja Samál, samtök álframleiðanda, í yfirlýsingu í tilefni af útkomu skýrslu Fraunhofer.

Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Virkjun Landsvirkjunar við Kárahnjúka.