Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Páll: Alvarlegasta atvikið í starfstíð minni

Mynd: ljósmynd/almannavarnir / RÚV
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala, segir að hópsýkingin sem upp kom á Landakotsspítala í október hafi verið alvarlegasta atvikið í sögu spítalans í hans starfstíð. Í skýrslu spítalans um málið sem kynnt var í dag segir að aðstæður og aðbúnaður á Landakoti hafi verið til þess fallið að auka líkur á dreifingu kórónuveirunnar. Ekki stendur til að taka húsnæðið úr notkun.

Dreifing smitsins var gríðarlega mikil eins og fram kom í skýrslunni. Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala, segir að ekki hefði verið hægt að koma í veg fyrir hópsýkinguna. Hann segir að spítalinn sé undir það búinn að takast á við fleiri bylgjur faraldursins, komi til þess.

„Við bregðumst þá við með því að einbeita okkur að þeim sem eru veikir og láta það bíða sem getur beðið. Bæta okkar sýkingavarnir, þannig að ég tel að við séum ágætlega í stakk búin til að takast á við nýja bylgju ef það þarf,“ segir Páll.

Niðurstaða skýrslunnar er að aðstæður á Landakoti hafi orðið til þess að útbreiðslan varð svona mikil. Páll segir að ekki standi til að taka húsnæðið úr notkun, en verið sé að bæta þar loftræstingu. Hann segir að Landakotsspítali sé barn síns tíma. „Þrátt fyrir að við höfum sett mikla fjármuni í að bæta aðbúnað þar, 1.800 milljónir á síðustu 16 árum, þá samt sér varla högg á vatni. Er þetta ásættanlegt húsnæði fyrir sérhæfða sjúkrahúsþjónustu? Nei. Enda er verið að byggja slíkt húsnæði. Hins vegar er þetta viðunandi fyrir ákveðna endurhæfingarstarfsemi til skamms tíma en ég held samt að við eigum að geta gert miklu betur.“

Páll segir að skýrslan sé áfellisdómur yfir heilbrigðiskerfinu. Þetta sé alvarlegasta atvikið í sögu Landspítala í starfstíð hans. „Eftir því sem ég kemst næst þá er þetta er það alvarlegasta sem hefur komið upp á spítalanum frá því að ég kom að honum.“