Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Óttast að veiran smitist úr dýrum í fólk í framtíðinni

13.11.2020 - 16:43
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Vaxandi áhyggjur eru uppi af því á alþjóðavísu að kórónuveiran sem veldur COVID-19 verði áfram í dýrum næstu árin. Alþjóðadýraheilbrigðisstofnunin, OIE, hefur hvatt ríki heims til þess að fylgjast sérstaklega vel með viðkvæmum dýrum vegna þessa, svo sem minkum og þvottabjörnum. Þá er einnig hvatt til þess að fylgst verði sérstaklega vel með því fólki sem umgengst dýrin, með tilliti til þess hvort heilsu þess stafi hætta af mögulegu smiti.

„Hættan á því að viðkvæm dýr, eins og minkar, beri veiruna í sér hefur valdið áhyggjum um allan heim. Slíkt gæti valdið áframhaldandi ógn við lýðheilsu og leitt til smita til manna,“ kemur fram í tilkynningu frá Alþjóðadýraheilbrigðismálastofnuninni. Breska ríkisútvarpið, BBC, fjallar um málið.

Sjá einnig: Minkar á Íslandi verða skimaðir fyrir kórónuveiru

Einnig eru uppi áhyggjur af því að veiran geti smitast úr minkum í rottur, mýs og úlfa. Þaðan gæti veiran borist aftur í mannfólk í framtíðinni, hefur breska ríkisútvarpið eftir Jeremy Farrar, framkvæmdastjóra rannsóknarsjóðsins Wellcome Trust í London.

Smit hafa greinst í minkum í DanmörkuGrikklandi, Spáni, Hollandi, Ítalíu og í Bandaríkjunum. Stjórnvöld í Danmörku hafa fyrirskipað að aflífa skuli alla minka í landinu vegna útbreiðslunnar. Veiran í minkunum hafði stökkbreyst og áhyggjur eru af því að bóluefni gegn COVID-19 virki ekki gegn stökkbreytta afbrigðinu. Þau tíðindi bárust þó í gær að danskir vísindamenn telja góðar horfur á að bóluefni sem verið er að þróa þar í landi gagnist einnig gegn stökkbreyttu veirunni. Í nýrri skýrslu Sóttvarnastofnunar Evrópu segir að rannsaka þurfi nánar hverjar afleiðingar stökkbreytingarinnar á virkni bóluefnis verði. 

Kórónuveiran sem hefur breiðst um heimsbyggðina á þessu ári er talin hafa smitast úr villtum dýrum í menn. Þaðan hefur hún smitast í minka sem margir hverjir eru hýstir við aðstæður þar sem smit geta breiðst hratt út þeirra á milli og sömuleiðis í menn. Minkar og frettur, sem eru dýr af marðarætt, eru viðkvæm fyrir kórónuveirum, eins og mannfólk. Sum dýrin fá engin einkenni á meðan önnur verða mjög veik og fá jafnvel lungnabólgu.