Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Minnst 14 látin í flóðum og skriðum á Filippseyjum

13.11.2020 - 06:33
Erlent · Hamfarir · Asía · fellibylur · Filippseyjar · Veður
epaselect epa08816997 A child's slipper left in the road covered in mud in the aftermath of Typhoon Vamco in Rodriguez, Rizal, east of Manila, Philippines, 13 November 2020. According to reports the death toll rose to at least 26 as Typhoon Vamco caused floods in Metro Manila, neighboring provinces and parts of the Bicol region after making landfall in the southern Luzon region.  EPA-EFE/MARK R. CRISTINO
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Fellibylurinn Vamco, sem herjað hefur á Luzon-eyju, stærstu eyju Filippseyja síðustu daga, hefur kostað minnst 14 mannslíf, samkvæmt upplýsingum frá yfirvöldum, og minnst jafnmargra er saknað. Talsmaður almannavarna upplýsti að enn gæti fjölgað í þessum hópi, og raunar hefur herinn, sem staðið hefur í ströngu í björgunarstörfum, sagt að 39 séu látin og 22 saknað.

Það eru einkum mikil flóð og aurskriður í og umhverfis höfuðborgina Manila sem reynst hafa mannskæð. Veðurhæð hefur verið heldur minni í Vamco en síðustu tveimur fellibyljum sem dunið hafa á Filippseyjum síðustu vikur, en úrhellið þeim mun meira og flóðin og aurskriðurnar eftir því. Hundruð þúsunda eru enn án rafmagns og vegir víða í sundur eftir hamfarirnar.