Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Krefjast óháðrar rannsóknar 80 ár aftur í tímann

Mynd: Guðmundur Bergkvist / RÚV
Geðhjálp og Landssamtökin Þroskahjálp hafa farið formlega fram á það við Alþingi að fram fari óháð rannsókn á aðbúnaði fatlaðs fólks og fólks með geðrænan vanda síðastliðin 80 ár. Tilefnið er fréttaflutningur af málefnum Arnarholts. Fjöldi fólks hefur haft samband við samtökin í kjölfar umfjöllunarinnar.

Starfsfólk á vistheimilinu Arnarholti lýsti ómannúðlegri meðferð á heimilisfólki í ítarlegum vitnaleiðslum fyrir tæpri hálfri öld. Greint hefur verið frá því sem fram kom í vitnaleiðslunum í fréttum í vikunni.

Samkvæmt upplýsingum frá bæði Geðhjálp og Landssamtökunum Þroskahjálp hefur fjöldi fólks haft samband á undanförnum dögum í kjölfar umfjöllunarinnar um Arnarholt, bæði aðstandendur fólks sem dvalið hefur á hinum ýmsu vistheimilum, sem og fagfólk. Þetta fólk hefur haft sögur að segja af mjög misjöfnum aðbúnaði á þeim heimilum.

Lögum verði breytt

Í gær sendu Þroskahjálp og Geðhjálp sameiginlegt erindi til velferðarnefndar Alþingis. Erindið ber yfirskriftina „Ósk um að Alþingi láti gera óháða rannsókn“. 

Í erindinu segir meðal annars:

Landssamtökin Þroskahjálp og Geðhjálp óska eftir því við velferðarnefnd Alþingis að nefndin hlutist til um að gerð verði óháð rannsókn á aðbúnaði og meðferð fullorðins fatlaðs fólks með þroskahömlun annars vegar og fullorðinna með geðrænan vanda hins vegar síðastliðin 80 ár á Íslandi.

Samtökin fara fram á að skoðaðar verði allar þær stofnanir og úrræði sem ríki, sveitarfélög, frjáls félagasamtök, líknarfélög og aðrir aðilar ráku fyrir þessa hópa. Þá vilja samtökin að gerð verði úttekt á þeim geðdeildum og úrræðum sem Landspítalinn og önnur sjúkrahús ráku á þessum tíma. Þá óska samtökin eftir því að ráðist verði í lagabreytingar svo aflétta megi leynd af þeim gögnum sem nauðsynlegt sé að skoða í tengslum við rannsóknina.

Loks segir í erindinu:

Forsvarsmenn beggja samtaka hafa í tengslum við fréttaflutning af málefnum vistheimilisins Arnarholts fengið sögur af öðrum úrræðum sem gefa tilefni til að málin verði könnuð ítarlega. Einnig þarf að huga að nútímanum því ábendingar hafa einnig borist forsvarsmönnum samtakanna af nýlegum málum sem vert er að skoða líka.