Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

„Kominn tími á að það komi eitthvað öðruvísi og nýtt“ 

13.11.2020 - 11:09
Mynd: Björgvin Kolbeinsson / RÚV
Fiskeldi Austfjarða vinnur nú að því að setja upp seiðaeldisstöð á Röndinni við Kópasker. Heitum sjó verður dælt úr borholum og inn í átta yfirbyggð ker þar sem alin verða laxaseiði. Bjartsýni gætir meðal íbúa enda á stöðin að skapa allt að fimmtán störf.

Hafa lengi haft áhuga á svæðinu

Fannar Helgi Þorvaldsson, framkvæmdarstjóri Rofós segir fyrirtækið lengi hafa haft augastað á Kópaskeri. Áætlaður kostnaður við verkefnið er á bilinu 1,2 til 1,5 milljarðar. „Við erum búnir að vera að skoða þetta svæði í nokkur ár með tilliti til að ala seiði í Rifós, flytja þau hingað í sjó, ala þau upp í 300-400 grömm og flytja svo í kvíar á Austfjörðum,“ segir Fannar. 

Dæla upp volgum sjó

Við Röndina á Kópaskeri er borað eftir volgum sjó sem nýttur verður í laxeldið. „Það er verið að bora fyrir volgum sjó, 13 gráða heitum. Það er svona grunnforsenda þess að menn völdu þennan stað.“  

Yngra fólkið spenntara

Bjartsýni gætir meðal íbúa vegna verkefnisins er stöðin mun skapa allt að 15 ný störf. Svala Rut Stefánsdóttir, íbúi á Kópaskeri er jákvæð fyrir verkefninu. „Mér finnst þetta bara ótrúlega spennandi, bara kominn tími á að það komi eitthvað öðruvísi og nýtt.“ 

Er fólk spennt fyrir þessu?

„Já, sko það er samt alveg mismunandi, sumir eru bara eins og er, þetta skemmir eitthvað þannig. En almennt séð finnst mér fólk og sérstaklega yngra fólkið spenntari fyrir því að það eru kannski að koma atvinnutækifæri.“  

Inga Sigurðardóttir, verslunarstjóri í Skerjakollu á Kópaskeri tekur í sama streng. Hún segir verkefnið þegar hafa haft jákvæð áhrif. „Já, já og það er þegar búið að hafa það því við erum að fóðra mennina sem koma hérna, þeir eru kostgangarar hjá okkur,“ segir Inga.

Mynd með færslu
 Mynd: Óðinn Svan Óðinsson - RÚV
Fannar Helgi Þorvaldsson, framkvæmdarstjóri