Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Kínverjar sendu Biden hamingjuóskir

epa08806796 President-elect Joe Biden speaks during a celebratory event held outside of the Chase Center in Wilmington, Delaware, USA, 07 November 2020. Major news organizations have called the US presidential election 2020 for democrat Joe Biden, defeating incumbent US President Donald J. Trump.  EPA-EFE/ANDREW HARNIK / POOL
Joe Biden fagnar eftir að hann var lýstur sigurvegari kosninganna. Mynd: EPA-EFE - AP POOL
Kínverjar hafa sent Joe Biden, nýkjörnum forseta Bandaríkjanna, hamingjuóskir, nærri viku eftir að fjölmiðlar vestanhafs lýstu hann sigurvegara kosninganna.

Talsmaður kínverska utanríkisráðuneytisins sagði í morgun að stjórnvöld í Peking virtu vilja bandarísku þjóðarinnar og óskuðu Biden og varaforsetaefni hans Kamölu Harris til hamingju. Hann bætti við að það væri skilningur stjórnvalda í Peking að niðurstaða kosninganna yrði skilgreind í samræmi við bandarísk lög og verklag.

Enn eru nokkur ríki sem ekki hafa óskað Biden og Harris til hamingju með sigurinn í kosningunum, þar á meðal Rússland og Mexíkó. Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur heldur enn ekki játað sig sigraðan.