Joe Biden fagnar eftir að hann var lýstur sigurvegari kosninganna. Mynd: EPA-EFE - AP POOL
Kínverjar hafa sent Joe Biden, nýkjörnum forseta Bandaríkjanna, hamingjuóskir, nærri viku eftir að fjölmiðlar vestanhafs lýstu hann sigurvegara kosninganna.
Talsmaður kínverska utanríkisráðuneytisins sagði í morgun að stjórnvöld í Peking virtu vilja bandarísku þjóðarinnar og óskuðu Biden og varaforsetaefni hans Kamölu Harris til hamingju. Hann bætti við að það væri skilningur stjórnvalda í Peking að niðurstaða kosninganna yrði skilgreind í samræmi við bandarísk lög og verklag.
Enn eru nokkur ríki sem ekki hafa óskað Biden og Harris til hamingju með sigurinn í kosningunum, þar á meðal Rússland og Mexíkó. Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur heldur enn ekki játað sig sigraðan.