Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Hárgreiðslu- og nuddstofur opna á ný en sundlaugar ekki

13.11.2020 - 12:15
Mynd: RÚV / RÚV
Slakað verður á sóttvarnaraðgerðum frá og með 18. nóvember, samkvæmt reglugerð heilbrigðisráðherra. Hárgreiðslu- og nuddstofur fá að opna, og dregið verður úr fjöldatakmörkunum í skólum til að hægt verði að opna framhaldsskóla að einhverju leyti.

Þetta staðfesti Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, í samtali við Höskuld Kára Schram fréttamann að loknum ríkisstjórnarfundi nú í hádeginu. Hún segir að þetta sé allt samkvæmt tilmælum sóttvarnalæknis, en breytingar eru eftirfarandi.

  • Einyrkjastarfsemi heimiluð, sem eru rakarastofur og nuddstofur og slík starfsemi
  • Íþróttir barna og ungmenna verða heimilaðar með og án snertingar
  • 25 manna samkomutakmarkanir í öllum framhaldsskólum með tveggja metra millibili, ekki bara fyrir þá sem eru á fyrsta ári. Áður voru takmarkanir miðaðar við 10.

Fjöldatakmarkanir verða almennt áfram óbreyttar og miðast við tíu manns. Þetta tekur gildi frá og með 18. nóvember og gildir til 2. desember. Ekki er búið að útfæra hvernig verður með skimun á landamærum.

„Við erum að sýna með þessu að við höfum tilefni til að slaka aðeins á, en alls ekki of mikið vegna þess að við verðum að ná undirtökunum og stjórn á faraldrinum. Það er gríðarlega mikilvægt, ekki síst upp á aðventuna og jólin,“ sagði Svandís.

Breytingarnar eiga því ekki við um annað eins og opnun veitingastaða, sundlauga og líkamsræktarstöðva.