Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Handritin til barnanna og börnin til handritanna

Mynd: Árnastofnun / Árnastofnun

Handritin til barnanna og börnin til handritanna

13.11.2020 - 09:56

Höfundar

Í kjallara Árnagarðs, í sérstakri handritageymslu, leynist mikill fjársjóður í formi skinnhandrita frá miðöldum. Í vor er hálf öld frá því fyrstu handritin komu heim frá Danmörku eftir áratuga samningaviðræður Dana og Íslendinga. Tímamótunum er meðal annars fagnað með því að miðla handritafróðleik til grunnskólabarna og með verðlaunahátíð 21. apríl þegar 50 ár eru, upp á dag, síðan Íslendingar tóku á móti Konungsbók eddukvæða og Flateyjarbók á hafnarbakkanum í Reykjavík.

Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, sem er meðal annars til húsa í Árnagarði við Suðurgötu í Reykjavík, stendur fyrir verkefninu Handritin til barnanna í tilefni handritahátíðar í vor. Markmið verkefnisins er að hvetja börn til sköpunar og til að koma hugmyndum sínum á framfæri við umheiminn. Jakob Birgisson og Snorri Másson eru fræðarar verkefnisins og hafa það hlutverk að fræða börnin um skinnhandritin í Árnagarði, sögu þeirra, tilurð, efni og allt mögulegt þeim tengt. 

Eva María Jónsdóttir starfar hjá Árnastofnun og leiðir verkefnið. Bjarni Benedikt Björnsson og Guðrún Línberg Guðjónsdóttir fjölluðu um Handritin til barnanna í Orði af orði á Rás 1 og ræddu við Evu Maríu.

Börn forvitin að heyra um dularfulla hluti

„Við búum svo vel að eiga fullt af handritum sem hafa verið hérna í tæplega 50 ár og þau eru vel geymd í geymslu úti í Árnagarði. Svo erum við með fullt af börnum sem munu í framtíðinni taka við handritunum, varðveita þau, rannsaka þau og gera sér mat úr þeim. Við vildum að þau yrðu meðvituð um þessi handrit sem allra fyrst. Börn eru ekki alveg eins og fullorðna fólkið því þau eru rosalega forvitin eðlislægt og svo eru þau líka ekki með fordóma og segja já, einmitt, gamlar fréttir. Það eru allt nýjar fréttir fyrir þeim og þau eru galopin fyrir að heyra um spennandi hluti sem eru kannski gamlir eða dularfullir eða hafa skrítna sögu. Að tengja þetta saman er innihaldið í þessu verkefni: Handritin til barnanna,“ segir Eva María.

Í handritasafni Árnastofnunar eru 1666 handrit og handritahlutar úr safni Árna Magnússonar auk 1345 íslenskra fornbréfa í frumriti og vel á sjötta þúsund fornbréfauppskrifta. Handritin sem komu fyrst heim: Konungsbók eddukvæða og Flateyjarbók, eru þau allra glæsilegustu, eins konar flaggskip handritanna, að sögn Evu Maríu.

Mikilvægast að Konungsbók glataðist ekki

„[Handritið] Flateyjarbók er gríðarlega vel úr garði gert, ríkulega myndskeytt og mikið í það lagt þannig að svona efnislega er það mjög tilkomumikið. En Konungsbók eddukvæða er með það efni sem er merkast og mikilvægast að ekki glataðist vegna þess að þar eru goðsögurnar og rosalega mikilvægar heimildir um norrænu goðin,“ segir Eva María.

Konungsbók eddukvæða er skinnbók sem skrifuð er seint á 13. öld. Hún er elsta og merkasta safn eddukvæða og frægust allra íslenskra bóka. Í henni eru goðakvæðin, þar er til dæmis Völuspá, Hávamál, Grímnismál og Þrymskviða; og hetjukvæðin, til dæmis kveðskapur um Helga Hundingsbana, Sigurð Fáfnisbana, Atla Húnakonung og fleiri.

„Það er búið að vinna svo mikið með handritaarfinn, og persónur Íslendingasagnanna eru fyrir sumum bara ljóslifandi. Maður veit um heimili þar sem amman kannski segir allt í einu upp úr þurru: Skelfilegt var það hvernig hún Hildigunnur fór með hann Flosa! Og krakkarnir vita þá að hún er að vitna í fornsagnirnar. Þannig að þetta er enn þá lifandi arfur og fólk er enn þá að hugsa um örlög þessara persóna,“ segir Eva María.

Dularfull eyða í Möðruvallabók

Möðruvallabók er stærsta varðveitta safn Íslendingasagna. Hún er talin hafa verið skrifuð um miðja fjórtándu öld og í henni eru Njáls saga, Egils saga og Fóstbræðra saga, sem þó eru ekki varðveittar þar í heilu lagi, Laxdæla saga og fleiri. Talið er að Möðruvallabók hafi ekki verið fullrituð. Eva María nefnir að í henni er eyða, á milli Njáls sögu og Egils sögu, þar sem stendur: Láttu rita hér við Gauks sögu Trandilssonar, mér er sagt að herra Grímur eigi hana. Einhverjir telja að Grímur þessi hafi verið Grímur Þorsteinsson riddari og hirðstjóri; og að Gaukur þessi hafi verið Gaukur á Stöng í Þjórsárdal, en Gauks saga Trandilssonar er ekki til, eða hefur að minnsta kosti ekki varðveist.

Möðruvallabók er í lykilhlutverki í barnabók eftir Arndísi Þórarinsdóttur sem kemur út um svipað leyti og haldin er handritahátíð í og við Hörpu í Reykjavík, 21. apríl. Þá verða líka framúrskarandi ungmennahandrit verðlaunuð og haldin myndlistarsýning í Ásmundarsal fyrir alla fjölskylduna. Í júní verður svo Ungmennahandritið 2021 valið á Sögum, verðlaunahátíð barnanna.

Verkefnið Handritin til barnanna teygir anga sína víða og ætla má að það verði til þess að börnin komi til handritanna, því það verður þeirra að taka við menningararfinum, varðveita hann og rannsaka.

Fjallað var um miðaldahandritin, verkefnið Handritin til barnanna og rætt við Evu Maríu Jónsdóttur, í Orði af orði á Rás 1, sunnudaginn 1. nóvember.

Tengdar fréttir

Íslenskt mál

„Við erum Gísli Marteinn barnanna“