Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Gera ráð fyrir óbreyttum stýrivöxtum

Mynd með færslu
 Mynd: Haukur Holm - RÚV
Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands tilkynnir um ákvörðun stýrivaxta 18. nóvember og gerir hagfræðideild Landsbankans ráð fyrir að meginvextir á sjö daga innlánum verði áfram eitt prósent. Þeir hafa aldrei verið lægri.

Nefndin hefur lækkað stýrivexti fjórum sinnum á þessu ári, í heild um tvö prósentustig. Að mati hagfræðideildarinnar er ekki ástæða til að ætla að breytingar verði gerðar þar sem gengi krónunnar sé svipað og er síðasta ákvörðun var tekin í ágúst. Þá var einnig gefin út verðbólgu- og þjóðhagsspá og þar sem gengið sé sambærilegt nú séu allar líkur á því að vextir standi í stað.

Verðbólgan skýrist að mestu leiti af veikingu krónunnar og er „krónan hættir að veikjast munu þessi gengisáhrif í verðbólgunni deyja út og hún hjaðna á ný, að öðru óbreyttu. Við teljum því ólíklegt að vextir verði hækkaðir jafnvel þó að verðbólga sé komin töluvert upp fyrir verðbólgumarkmið“, segir í tilkynningu frá hagfræðideildinni.

Íhlutun minni en búist var við

Á vormánuðum greindi peningastefnunefndin frá því að henni hefði verið heimilað að kaupa ríkisskuldabréf fyrir 150 milljarða króna eða sem nemur um fimm prósentum af landsframleiðslu. Þar með var stígið fyrsta skrefið í átt að magnbundinni íhlutun (e. quantitative easing), sem „hefur verið stunduð af seðlabönkum víða um heim til þess að hafa áhrif á vexti á lengri tíma skuldbindingum. Vaxtakjör ríkissjóðs mynda gólf fyrir aðra markaðsvexti og því hefur lækkun langtímavaxta ríkissjóðs einnig áhrif á vaxtakjör til heimila og fyrirtækja.“

Að sögn hagfræðideildarinnar stóðu vonir til að slíkri íhlutun yrði beitt af meiri krafti en raun hefur orðið. Samkvæmt efnahagsreikningi bankans keypti hann ríkisskuldabréf fyrir 447 milljónir króna í maí og nam fjárfestingin 930 milljónum í júní og haldist óbreytt síðan. Þetta er einungis lítill hluti af þeim 150 milljörðum sem honum var heimilað að nýta til að fjárfesta í ríkisskuldabréfum. Að mati hagfræðideildarinnar virðist tilgangurinn með þessum aðgerðum vera „að koma í veg fyrir að ávöxtunarkrafa ríkisbréfa hækki þegar ríkið þarf að hefja fjármögnun núverandi hallareksturs ríkissjóðs og væntan halla næstu ára.“