Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Fólk sem hefur fengið COVID þarf ekki að bera grímu

Mynd með færslu
 Mynd: Þórhildur Þorkelsdóttir - RÚV
Þeir sem hafa fengið COVID-19 eru undanþegnir grímuskyldu og geta þá sýnt vottorð þar að lútandi. Þetta kemur fram í reglugerð sem heilbrigðisráðherra kynnti í dag þar sem boðaðar eru tilslakanir á sóttvarnaaðgerðum frá og með 18. nóvember. Þetta ákvæði á við um þá tæplega 5.200 Íslendinga sem nú hafa greinst með smit.

Í reglugerðinni segir að bera skuli grímur í almenningssamgöngum, verslunum og annarri þjónustu og þar sem ekki er hægt að tryggja tveggja metra fjarlægð á milli fólks.

Undanþegnir eru þeir sem hafa fengið COVID-9 og lokið einangrun. Það á einnig við um þá sem hafa ekki skilning eða þroska til að nota grímu á réttan hátt eða geta það ekki af öðrum ástæðum, til dæmis vegna heilsufars.

Í reglugerðinni segir að þeir sem þetta á við um skuli sýna vottorð um undanþágu frá grímuskyldu, auk skilríkja sé þeirra krafist.

Sækja má um slíkt vottorð á Heilsuvera.is.