Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Fjarstæðukennt að halda því fram að þjónustu fari aftur

Mynd með færslu
 Mynd: Gunnlaugur Starri Gylfason - RÚV/Landinn
Hreppsnefnd Árneshrepps sýtir það að Vegagerðin hafi gengið til samninga við flugfélagið Norlandair fremur en Erni um flugþjónustu í hreppinn. framkvæmdastjóri Norlandair segir fjarstæðukennt að halda því fram að þjónustu fari aftur við þessa breytingu.

Eva Sigurbjörnsdóttir, oddviti Árneshrepps segir sveitarfélagið hafa áhyggjur af því að flugþjónusta verði lakari nú þegar fyrirætlað er að Norlandair taki við flugi til Gjögurs af Erni. Sveitarfélagið hafi verið illa upplýst um gang mála við útboð flugleiðanna. 

„Við vitum í rauninni ekkert annað en það sem við höfum heyrt sem eru bara sögusagnir og þar á meðal að Norlandair eigi ekki vélar sem standast nútímakröfur.“

Vegurinn í Árneshrepp lokast jafnan að vetrinum. Þá eru flugsamgöngur eini kosturinn til þess að komast í og úr hreppnum sem er fámennasta sveitarfélag landsins. 

„Við þurfum alla þá aðstoð og þjónustu sem við getum mögulega fengið og það gerist ekki með því að gera hana lélegri en hún var,“ segir Eva.

Fjarstæðukenndar yfirlýsingar

Friðrik Adolfsson framkvæmdastjóri Norlandair segir yfirlýsingar um að flugþjónustu til Bíldudals og Gjögurs fari aftur um ár og áratugi með þessari breytingu fjarstæðukenndar. Til að mynda ætli Norlandair sér að nota yngri flugvélar til þessara staða en Ernir.

Þá bendir hann á að fyrirtækið hafi þjónustað aðra áfangastaði eins og Vopnafjörð og Grímsey farsællega í áratugi. Norlandair muni enn fremur setja upp útibú í Reykjavík til þess að geta þjónustað þessar flugleiðir.