Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Fimm poppuð og bara þægileg fyrir helgina

Mynd með færslu
 Mynd: Interscope - Therefore I Am

Fimm poppuð og bara þægileg fyrir helgina

13.11.2020 - 11:00

Höfundar

Það er engin þörf á að fara úr jogginggallanum og í eitthvað meira glamúrus til að njóta fimmunnar að þessu sinni. Í boði er nýtt frá undrabarninu Billie Eilish, sækadelíu-gospelbræðingur frá Knocks ásamt Foster the People, ástfanginn Bakar, grænu augun hennar Arlo Parks auk þess sem gamall perraslagari er endurnýttur af Avalanches ásamt Leon Bridges.

Billie Eilish – Therefore I Am

18 ára undrabarnið Billie Eilish er á heimspekilegu nótunum í nýja bangernum sínum, Therefore I Am, sem er mjög gott. Lagið er enn ein sönnun þess að þessi pía er ekkert að grínast og dúndrar bara út snilld þegar henni þóknast og það er ekki verra að hafa snilldina fönkí.


Knocks ft. Foster the People – All About You

Það er augljóst að hér er verið að leita eftir innblæstri í snilld frá byrjun níunnar, frábært afslappað húsbít með sækadelíu- og gospeláhrifum eins og gamalt fólk man eftir á meistarastikki Primal Scream, Screamadelica. Poppsveitirnar vinsælu Knocks og Foster the People fá samt plús í kladdann og klór á bakið fyrir það að eftirherman er alls ekki augljós og ber þeirra eigin fingraför.


Bakar – 1st Time

Prakkarinn hann Bakar hefur verið að svelta sig af samfélagsmiðlum síðustu tvö ár til að einbeita sér að ferlinum. Miðað við nýja lagið 1st Time hefur hann samt sem áður greinilega hitt einhverja píu í strætó eða Bónus sem er að gera líf hans betra og skemmtilegra.


Arlo Parks – Green Eyes

Þegar gagnrýnendur BBC völdu Anaïs Oluwatoyin Estelle Marinho, eða bara Arlo Parks, sem listamann til að fylgjast með á árinu 2020 hittu þeir svo sannarlega nagla á höfuð. Hún hefur átt hvern snilldarsmellinn á fætur öðrum og nú er það lagið Green Eyes. Í því er hún með gestainnkomu frá Clairo á gítar og í bakröddum en lagið verður að finna á væntanlegri fyrstu plötu hennar, Collapsed in Sunbeams.


The Avalanches ft. Leon Bridges – Interstellar Love

Félagarnir í dúettinum ástralska Avalanches eru algerir snillingar í að beita tónsarpi og sýna allar sínar bestu hliðar í samstarfi sínu við söngvarann Leon Bridges, þar sem þeir nota perraslagara Alan Parsons Project, Eye In the Sky, á frábæran hátt. Lagið er tekið af væntanlegri plötu þeirra We Will Always Love You sem fjallar eins og lagið um Carl Sagan og konu hans Ann Druyan. En dæmi um rómatískt samband náðist á band og var sent út í geim á gullnu plötunum svokölluðu sem voru sendar í geimskutlunni Voyager til að ná sambandi við verur á öðrum hnöttum.


Fimman á Spottanum