Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Brexit og deilur í Downing stræti

13.11.2020 - 20:55
Mynd: EPA-EFE / EPA
Allir breskir forsætisráðherra hafa haft ráðgjafa en enginn hefur skapað jafnmargar fréttir og Dominic Cummings fráfarandi ráðgjafi núverandi forsætisráðherra. Cummings virðist hafa orðið undir í valdatafli þar sem einn andstæðingurinn er sambýliskona forsætisráðherra. Allt gerist þetta rétt þegar komið er fram á ögurstund í Brexit-samningum Breta við Evrópusambandið.

 

Frá innyflaspár yfir í innyfli Downing strætis

Forn-Grikkir brúkuðu innyflaspár til að spá fyrir um framtíðina. Í Bretlandi er rýnt í innyfli forsætisráðuneytisins, hverjir eru þar, hverjir ekki. Tveir harðir Brexit-sinna ráðgjafar eru nú á förum þaðan. Annar lítt þekktur, Lee nokkur Cain. Hinn er Dominic Cummings, heimsfrægur ráðgjafi forsætisráðherra. Svo náinn honum að allt þetta ár hefur forsætisráðherra fremur kosið að hlífa Cummings en sinna kveinstöfum þingflokksins vegna ráðgjafans.

Ráðgjafinn sem braut óskrifaðar reglur

Cummings braut óhikað óskrifaðar reglur um að ráðgjafar eigi að láta verkin tala, ekki vera sjálfir sífellt að daðra við fjölmiðla. Hreytti þar ósjaldan ónotum í þingmenn sem virtist undarleg leið til að vinna hugmyndum sínum um róttækar breytingar brautargengi. Cummings var driffjöðrin 2016 í sigri Brexit-vængsins í þjóðartkvæði um ESB-aðild. Í Downing stræti liggur lítið sýnilegt eftir hann annað en kvartanir um ógnarstjórn hans frá þeim sem voru ekki í náðinni.

Sambýliskonan og ráðgjafinn

Það eru fleiri persónur og leikendur í þessu drama: Carrie Symonds fyrrum fjölmiðlafulltrúi Íhaldsflokksins er nú sambýliskona og barnsmóðir forsætisráðherra. Það hefur verið orðrómur um að henni féllu ekki gauralætin í teymi sambýlismannsins þar sem kvenkyns ráðgjafar ættu ekki upp á pallborðið. Í vikunni var tilkynnt að Cain yrði starfsmannastjóri forsætisráðherra en þegar hann skynjaði mótstöðuna frá Symonds-arminum, sagði hann af sér. Fljótlega tilkynnti Cummings að hann myndi hætta í árslok, virtist búast við að verða ella rekinn.

Pólitískt samhengi bræðravíga

Og þá er það pólitíska samhengið. Brexit-ögurstund blasir við, tími Breta til að gera fríverslunarsamning við Evrópusambandið er að renna út. Nema auðvitað að það verði ekki samið. Og þá heyrist spurt: er tilviljun að tveir harðir Brexit-sinnar eru að yfirgefa forsætisráðherra einmitt nú?

Brexit-kúvending fyrir ári síðan

Kemur í ljós en það má rifja upp að fyrir rúmu ári kúventi forsætisráðherra til að ná útgöngusamningi við ESB. Reyndar kúvending, sem hann vill draga til baka með frumvarpi, ef ekki semst. Frumvarpið mæltist illa fyrir, jafnt heima sem heiman, því þá brytu Bretar þennan samning frá í fyrra. Joe Biden forsetaframbjóðandi demókrata í Bandaríkjunum varaði við þessu skrefi. Viðvörun sem hefur öðlast aukið vægi nú þegar Biden er tilvonandi Bandaríkjaforseti.

Brexit-samningar og brandarar

Samningar Breta við ESB eru í járnum, bæði um fríverslun og fiskveiðar. Bretar höfðu vonast eftir undirtektum við sín sjónarmið á leiðtogafundi ESB um miðjan október en nei, varð ekki. Johnson sagði þá að Bretar væru óhræddir við að versla við ESB á sömu forsendum og Ástralía.

Það hljómar kannski ekki illa en Pascal Lamy fyrrum framkvæmdastjóri Alþjóða viðskiptastofnunarinnar benti á nokkuð afgerandi staðreyndir í þeim efnum: Það er brandari að tala um viðskiptasamning eins og  Ástralía hefur við ESB. Ástralía hefur alls engan viðskiptasamning við ESB, sagði Lamy.

Barnier bregður á leik

Í haust var talað um árangur í viðræðum Breta og ESB en örvæntingarfullur Michel Barnier aðal samningamaður ESB hefur síðan sagt nokkrum sinnum að Bretum miði frekar aftur á bak en áfram. Í gær sló Barnier öllu upp í kæruleysi, tísti mynd af sér á fótbollavelli í leit að að sléttum velli, sagði hann. Þetta bókstaflega myndmál vísar í samkeppnismálin, óleyst deiluefni, í viðbót við fiskveiðar og lögsögu væntanlegs viðskiptasamnings.

Áfram það sama: Bretar vilja vera og ekki vera

Bretar kvarta yfir að ESB skilji ekki kröfur sjálfstæðs Bretlands. ESB-löndin telja sig reyndar líka sjálfstæð. ESB segir Breta vilja knýja ESB til að rjúfa reglur innri markaðarins. Charles Michel forseti ráðherraráðs ESB sagði nýlega að ESB taki því fagnandi að Bretar vilji náin tengsl við ESB.

En, Bretar vilja aðgang að innri markaðnum jafnframt því að geta vikið frá stöðlum og reglum þegar það hentar þeim. Það gengur ekki, sagði Michel.

Brexit-aðlögunartími fyrir Norður-Íra

Nýjustu Brexit-fréttir eru um aðlögunartíma fyrir verslunareigendur á Norður-Írlandi. ESB samþykkt að þeir þurfi ekki að fylgja nýjum reglum strax í janúar, hverjar sem þær verði.

Langvarandi innanhússdeilur, óklár Brexit-stefna

Úti í Evrópu rýna menn líka í innyflin í bræðravígum í Downing stræti. Langvarandi innanhússdeilur þar talin ein skýringin á óklárri Brexit-stefnu Breta. En Brexit bíður ekki, gerist um áramótin, hvort sem semst eða ekki.