Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Biðja Bandaríkjamenn að halda sig í Afganistan

epa07208518 US Secretary of State Mike Pompeo (L) and French Foreign Minister Jean-Yves Le Drian during a family picture of Nato Foreign ministers at the council in the Alliance headquarters, Brussels, Belgium, 04 December 2018.  EPA-EFE/OLIVIER HOSLET
Pompeo og Le Drian á fundi NATO-ríkja árið 2018. Mynd: EPA-EFE - EPA
Frönsk stjórnvöld ætla að fara þess á leit við bandarísk yfirvöld að þau kalli herlið sitt ekki heim frá Afganistan eða Írak. Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur undanfarið dregið mjög úr fjölda hermanna í Afganistan og við það eru Frakkar ekki sáttir.

Frá þessu greindi franski utanríkisráðherrann Jean-Yves Le Drian í dag í sjónvarpsviðtali aðspurður um skoðun sína á fækkun hermanna í Afganistan. Hann sagði enn fremur að slíkt væri ekki viturlegt í Írak. Emmanuel Macron Frakklandsforseti tekur á móti Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna í opinbera heimsókn í París á mánudag þar sem rætt verður um þetta auk fleiri atriði, til dæmis Íran, samskiptin við Kína og hryðjuverk.

Í október sagði Trump að hann vildi alla bandaríska hermenn burt frá Afganistan fyrir jóladag. Síðar greindi Robert O'Brien, þjóðaröryggisráðgjafi forsetans, að ekki yrðu fleiri en 2500 bandarískir hermenn í landinu snemma á næsta ári.

Samkvæmt heimildum AFP-fréttastofunnar setti Pompeo íröskum stjórnvöldum afarkosti í september um að herlið yrði kallað heim sem fyrst ef árásum af hálfu uppreisnarhópa í landinu gegn því linnti ekki.

Auk þess að sækja Frakkland heim fer Pompeo til Tyrklands, Georgíu, Ísrael, Sameinuðu arabísku furstadæmanna, Katar og Sádi-Arabíu. Þetta verður að öllum líkindum síðasta ferðalag utanríkisráðherrans þar sem Trump tapaði fyrir Joe Biden í bandarísku forsetakosningunum fyrr í mánuðinum. Pompeo hefur þó ekki enn viljað staðfesta úrslit kosninganna en Macron hefur lýst því yfir að heimsókn Pompeo sé undir þeim formerkjum að Biden hafi verið sigurvegari þeirra.