Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Áhersla á að framhaldsskólanemar komist aftur í skólana

Lilja Alfreðsdóttir
 Mynd: Alþingi - Skjáskot
Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra segir allan metnað lagðan í að koma framhaldsskólanemendum aftur í skólann að teknu tilliti til sóttvarnareglna. Lilja flutti í morgun Alþingi munnlega skýrslu sína um stöðu skólamála á tímum COVID-19 þar sem hún fór yfir stöðuna á hinum ýmsu skólastigum.

Brotthvarf er minna en áður. Þingmenn hafa áhyggjur af félagslegri einangrun nemendanna.

„Engu að síður er félagslegur þroski  og samskipti við aðra lykilatriði í góðri menntun og því er markmiðið einfalt. Markmiðið núna er að koma öllum í staðnám sem fyrst, en að sjálfsögðu taka fullt tillit til sóttvarna til að tryggja heilsu,“ sagði Lilja.

„Áhyggjuefni mitt er það að við erum náttúrulega langt frá því að vera búin að sjá fyrir endann á þessu ástandi. Eftir því sem það dregst á langinn þá verða afleiðingarnar okkur kunnari á hverjum degi; félagsleg einangrun framhaldsskólanema sem eru meira og minna í fjarkennslu,“ sagði Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Miðflokksins.

Flestir þingmenn lýstu einmitt áhyggjum af sálrænum styrk nemenda.

Fjölbreytt dagskrá er á þingfundi í dag og rétt fyrir hádegi varð að lögum samhljóða frumvarp dómsmálaráðherra að framlengja bráðabirgðaheimildir lögreglu, sýslumannsembætta og dómstóla til að beita í auknum mæli rafrænum lausnum við meðferð mála og að þingfesta megi mál á fjarfundi.

Allt tengist þetta faraldrinum, eins og svo mörg önnur mál sem Alþingi fæst við þessa dagana.