Fjölmiðlar hafa töluvert fjallað um mál hjónanna Bassirou Ndiaye og Mahe Diouf og dætra þeirra, Mörtu sex ára og Maríu þriggja ára. Landsréttur hefur staðfest úrskurð Útlendingastofnunar um að veita fjölskyldunni ekki alþjóðlega vernd á Íslandi.
Bassirou og Mahe hafa dvalið á Íslandi í næstum sjö ár og stúlkurnar eru báðar fæddar hér á landi. María er á leikskólanum Langholti og Marta í Vogaskóla.
„Þetta er ekki boðlegt. Þær eru fæddar hér og uppaldar og það eru þeirra mannréttindi að fá að vera hér,“ sagði Kolbrún Helga Pálsdóttir við Höskuld Kára Schram fréttamann á meðan beðið var eftir dómsmálaráðherra fyrir utan Ráðherrabústaðinn.
Málið var meðal annars til umræðu á Alþingi þar sem Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, tók málið upp í óundirbúnum fyrirspurnum. „Við erum að senda Íslending úr landi, einstakling sem fæddist hér og hefur aldrei verið annars staðar,” sagði Helgi Hrafn.
Kolbrún segir að það sé greinilega mikil samstaða í þjóðfélaginu vegna málsins.
„Alveg klárlega. Við fengum 20.655 til að skrifa undir bara á örfáum dögum. Við stoppuðum bara þar og sendum í prent. Ég held það sé mikil samstaða í landinu með þessari fjölskyldu.“