Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Ætla að rukka fyrir bílastæði á Akureyri

13.11.2020 - 16:44
Mynd með færslu
 Mynd: Tryggvi Aðalbjörnsson - RÚV
Stefnt er að því að hefja gjaldtöku fyrir bílastæði í miðbæ Akureyrar í maí á næsta ári. Í um 15 ár hafa gjaldfrjálsar bílastæðaklukkur verið notaðar.

Þórhallur Jónsson, formaður skipulagsráðs segir mikla óánægju með bílastæðaklukkurnar hjá gestum bæjarins enda tíðkist þær hvergi annars staðar. Ferðamenn kveðji Akureyri með sektir í vasanum og það sé neikvæð upplifun. Þá valdi háar sektir pirring hjá viðskiptavinum bæjarins. „Fyrir utan hvað þetta er mikið áreiti gagnvart kaupmönnum í bænum að útskýra þetta klukku fyrirkomulag,“ segir hann.

Bæjarbúar geti sennilega allir sætt sig við það að borga nokkra hundrað kalla fyrir að leggja í staðin fyrir að fá sekt. Og þurfa þá heldur ekki að hlaupa út til þess að breyta klukkunni. 

Breytingin sé búin að vera í undirbúningi í tvö ár og ekki partur af því að reyna að rétta rekstur bæjarins af enda komi gjaldtaka ekki til með að gefa meira af sér heldur en sektarkerfið í dag. Það verði hins vegar færri sektir og meiri ánægja. Stefnt er að því að koma upp hefðbundinni gjaldtöku sem þekkist annars staðar og hafa sérfræðingar hjá Eflu verkfræðistofu unnið að innleiðingunni.