Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

„Þetta á eftir að verða drepleiðinlegt!“

Mynd: ÍÓ / ÍÓ

„Þetta á eftir að verða drepleiðinlegt!“

12.11.2020 - 09:11

Höfundar

Elmari Gilbertssyni óperusöngvara leist ekkert á blikuna þegar hann æfði fyrir frumraun sína í Íslensku óperunni. „Svo bara kom allt annað í ljós.“

Íslenska óperan er 40 ára í ár. Af því tilefni er litið til baka og góðra stunda minnst. Þátttakendur úr ýmsum áttum deila minningum sínum og upplifun af óperum. Elmar Gilbertsson ríður á vaðið og segir frá því þegar hann ákvað að gerast söngvari.

Elmar er uppalinn í Dölunum og lærði mjög fljótlega að ef maður vildi hafa söng þá þurfti maður að gjöra svo vel og gera það sjálfur. „Þannig að ég byrjaði bara að syngja og komst að því að ég var með smá rödd en það var ekkert meira heldur en það. Ég hef nú aldrei verið hræddur við að vinna. Og ég get alveg eins farið að vinna á lyftara, sko. En meðan ég get kosið sjálfur að þá kýs ég þetta.“

Fyrsta óperan sem hann sá hjá Íslensku óperunni var Brúðkaup Fígarós. „Svo er þetta eins og gerist, maður fer á sýningu og maður einhvern veginn heillast algjörlega. Þá opnast svona nýr heimur, sem var algjörlega ókannaður.

Úr óperunni Ragnheiði
 Mynd: ÍÓ - Íslenska óperan
Elmar og Þóra Einarsdóttir fóru með aðahlutverk í óperunni Ragnheiði.

Hans helsta minning af Íslensku óperunni er þegar hann þreytti frumraun sína í óperunni Ragnheiði. „Þetta var rosalega vel heppnað verkefni. Ég man eftir að ég hugsaði, þegar við stóðum í litlu æfingarými í kjallaranum á Hörpu, að ég stóð og var að syngja eitthvað og ég hugsaði, ég get sagt ykkur það: „Þetta á eftir að verða drepleiðinlegt!“ Svo bara kom allt annað í ljós.“

„Það var magnað að upplifa það að hafa svona mikil áhrif á fólk. Og fólkið sem maður hefur inspírerast af, að standa á sviðinu með því fólki í þessu verkefni var ógleymanlegt fyrir mig.“

Tengdar fréttir

Klassísk tónlist

Íslenska óperan 40 ára í dag