Hlustaði á sögu viðskiptafélaga sem hafði drukkið mikið sake
Sagan gerist í Reykjavík og Tókýó samtímans og London á sjöunda áratugnum og mætti lýsa henni sem tregafullri ástarsögu sem fjallar um það að eldast. „Ég hafði lengi gengið með það í maganum að gera Japan einhvers konar skil í mínum bókum,“ segir Jóhann en hann var mikið í Tókýó fyrir tæpum þremur áratugum.
Ein kveikjan að sögunni varð þegar hann út að borða með samstarfsmanni sínum í Tókýó og fengu þeir sér veglegan kvöldverð og drukku sake á eftir eins og er til siðs. Þar átti sér stað samtal sem setið hefur í Ólafi síðan. „Þá opnaðist gátt inn í sálina á honum og hann fór að segja mér sögu af fjölskyldu sinni,“ segir hann. „Þessi saga festist í mér og ég vissi að ég myndi einhvern tíma gera eitthvað með hana.“
Sagan tengist meðal annars seinni heimsstyrjöldinni, eftirstríðsárunum og skelfilegu kjarnorkusprengingunni í Hiroshima. „Þetta ástand sem við erum í núna gefur manni tilefni til að líta aftur og skoða það sem hefur riðið yfir mannkynið á undanförnum áratugum.“
Neyðist til að loka veitingastaðnum og fær þá dularfull skilaboð
Það hafði líka lengi blundað í honum löngun til að skrifa sögu um veitingamann sem er að ljúka rekstri. „Hvernig á því stendur, það verður einhver annar en ég að analísera,“ segir hann sposkur.
Þegar COVID skellur á í Reykjavík neyðist veitingamaðurinn til að loka staðnum sínum en þá fær hann einmitt vinabeiðni frá konu sem hann hefur ekki séð í 50 ár. „Hann er ekkjumaður og ákveður að að fara út í heim áður en allt lokast,“ segir Ólafur. Söguhetjan heldur því til Lundúna og þaðan til Japans til að hita konuna úr fortíðinni.
Fékk son sinn til að lýsa ástandinu í Japan
Það kom sér vel að um það leyti sem Ólafur settist við skriftir var sonur hans staddur í Japan. Hann gat því sagt föður sínum hvernig er umhorfs þar í dag. „Hann fór að fá skrýtnar beiðnir frá föður sínum um að ahtuga eitt og annað svo ég hefði smáatriðin á hreinu,“ segir Ólafur.
Grunaði í hvað stefndi í New York
Fjölskyldan stefnir á að dvelja hér á landi þar til ástandið skánar í heiminum. Í New York eru smitin á uppleið en þau munu halda áfram að fylgjast með þróun mála og snúa aftur þegar færi gefst. „Mér finnst ég öruggari hér en þar og mér hefur fundist það frá upphafi,“ segir hann. „Mig grunaði hvert stefndi í New York áður en það varð eins slæmt og það varð en borgin er auðvitað óþekkjanleg og er búin að vera það.“
Birtir til eftir forsetakosningarnar
En það hefur fleira en faraldursástand sett svip sitt á Bandaríkin síðustu daga því þar áttu sér líka stað forsetakosningar sem Demókratinn Joe Biden sigraði eftir mikla baráttu við sitjandi forseta Donald Trump. „Ég viðurkenni að það er miklu fargi af manni létt,“ segir hann. Sonur hans er staddur í New York og segir hann ótrúlegan mun á borginni fyrir og eftir að úrslit kosninganna urðu ljós. „Það er eins og svart ský hafi farið hjá og sólin sé farin að skína.“
Egill Helgason ræddi við Ólaf Jóhann Ólafsson í Kiljunni á RÚV.