
Stórfelld kosningasvik valda fjaðrafoki á Nýja-Sjálandi
Þingkosningar fóru fram á Nýja-Sjálandi 17. október. Þær fóru í alla staði vel fram og Jacinda Ardern og Verkamannaflokkurinn fóru með óumdeildan og óvéfengdan stórsigur af hólmi. Nú standa aðrar og ekki síður mikilvægar kosningar yfir í landi andfætlinga okkar, þar sem titillinn Fugl ársins er í húfi, því þótt Nýsjálendingar eigi sér sinn þjóðarfugl, kíví-fuglinn, þá aftrar það þeim ekki frá því að kjósa sér nýjan uppáhaldsfugl á ári hverju.
Flaug hátt – en ekki lengi
Skipuleggjendur þeirra greindu frá því í vikunni að upp hefði komist um alvarleg og stórfelld kosningasvik. Litli dílakívíinn, eða kiwi pukupuku, ein fimm kívítegunda landsins, fékk skyndilega heil 1.500 atkvæði og flaug beint á toppinn, þótt ófleygur sé. Við athugun kosningaeftirlitsmanna sýndi sig að þessi atkvæði höfðu öll borist úr einni og sömu tölvunni í skjóli nætur. Voru atkvæði hins ósvífna nátthrafns óðara ógilt og féll litli dílakívíinn þá töluvert neðar á listann, að sögn Megan Hubscher, talskonu kjörstjórnar.
Ekki fyrsta tilraunin til ólögmætra afskipta
Hubscher segir þetta ekki fyrsta skiptið sem reynt er að hafa rangt við í kosningunum um fugl ársins. Þannig olli það töluverðu fjaðrafoki fyrir tveimur árum þegar toppskarfinum, þeim annars ágæta fugli, bárust á fjórða hundrað ólögmætra atkvæða frá Ástralíu. Þá vaknaði grunur um ólögmæt afskipti Rússa í fyrra, þegar rússneski jaðrakaninn rauk upp listann, en hann hefur vetursetu á Nýja-Sjálandi.
Hver tekur við titlinum af Kea-gauknum?
Kosningarnar eru liður í því að vekja athygli á fjölbreyttu fuglalífi Nýja-Sjálands og þá sérstaklega þeim fuglategundum, sem eiga undir högg að sækja. Þeim lýkur á sunnudag og á mánudag kemur í ljós hvaða fugl leysir Kea-gaukinn, eina fjallapáfagauk heimsins, af hólmi sem fugl ársins á Nýja-Sjálandi. Hægt er að skoða hina fiðruðu frambjóðendur ársins á þar til gerðum kosningavef.