Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Sló í brýnu með Þorgerði Katrínu og Bjarna

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Nokkuð sló í brýnu með þeim Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur formanni Viðreisnar og Bjarna Benediktssyni fjármála- og efnahagsráðherra í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í morgun.

Þorgerður Katrín spurði Bjarna hvort hann deildi áhyggjum Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra af stöðu pólskra kvenna. Þar vísaði hún til nýrra laga þar í landi varðandi þungunarrof sem hún sagði þau ströngustu í Evrópu.

Lög og réttlæti, stjórnarflokkurinn þar í landi, þrengdi að kvenfrelsi og hefði lengi haft á stefnu sinni að minnka rétt kvenna til þungunarrofs. Flokkurinn væri systurflokkur Sjálfstæðisflokksins í ACRE og því væri spurningunni einnig beint til Bjarna sem formanns hans.

Hún rifjaði upp að þegar ný lög um þungunarrof voru samþykkt á Alþingi í september 2019 hafi átta þingmenn Sjálfstæðisflokksins greitt atkvæði gegn þeim.  Einn þeirra var Bjarni Benediktsson.

Þorgerður Katrín spurði þá hvort hann teldi að konur ættu að ljúka meðgöngu tilneyddar. „Er ráðherra á þeirri skoðun að kon­ur eigi al­ger­lega til­neydd­ar að ljúka meðgöngu þrátt fyr­ir að ljóst sé að barn muni ekki lifa það af eða tölu­verð áhætta geti fylgt því, bæði fyr­ir móður og barn?“

Bjarni brást ókvæða við og kvaðst ekki átta sig á hvað þingmaðurinn væri að fara. Hann sagði með ólíkindum að hlusta á málfutning hennar, einhverja ömurlegustu tilraun til að tengja Sjálfstæðisflokkinn við hneyksli úti í Evrópu og bað um að umræðurnar yrðu færðar á hærra plan.

Bjarni kvaðst deila áhyggjum forsætisráðherra og að hann styddi þær reglur um þungunarrof sem gildi á Íslandi þótt hann hefði gert athugasemdir við hvaða tímamörk skyldi miða. Reglunar í Póllandi væru ekki til fyrirmyndar og hann hefði áhyggjur af stöðu kvenna þar. 

Þorgerður endurtók spurningu sína.  „Ég held að fjár­málaráðherra hafi farið öf­ugu meg­in fram úr rúm­inu,“ sagði hún og bætti við að þegar Ísland talaði væri hlustað. Við ættum að tryggja réttindi kvenna um allan heim. 

Bjarni ítrekaði svar sitt og bætti við að Þorgerður talaði um „allan andskotann annan“. Þótt Sjálfstæðisflokkurinn væri í samstarfi með öðrum stjórnmálaflokkum væri hann ekki sammála þeim í öllum málum.

„Þetta er bara ekki boðleg nálg­un. Þetta er bara aum og öm­ur­leg til­raun til að koma höggi á Sjálf­stæðis­flokk­inn út af ein­hverju sem er að ger­ast úti í Póllandi.“ sagði Bjarni að lokum.