Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Slegist um hvolpa og kettlinga í kófinu

12.11.2020 - 19:34
Mynd: Eggert Þór Jónsson / RÚV
Mikil eftirspurn er eftir gæludýrum þessa dagana. Dýralæknir hvetur fólk til þess að láta ekki undan hvatvísi heldur hugsa málið vandlega áður en það ræðst í slíka skuldbindingu. Fólk verði að vera reiðubúið til að skuldbinda sig fjárhagslega og tímalega.

Það er í nógu að snúast á Dýraspítalanum í Garðabæ. Tíkin Stella er nýbúin í bráðakeisara og tveir glænýir hvolpar komnir í hitakassa.

Hanna M. Arnórsdóttir dýralæknir er að hjálpa hvolpunum á spena. „ Þeir finna bara lykt. Heyra ekki og sjá ekki. Það er það sem færir þá að spenanum.“

Kristín Sveinsdóttir er eigandi Stellu og hvolpanna. Hún segir að hvolparnir hafi verið of stórir fyrir Stellu að gjóta þeim sjálf. 

Hvers vegna ertu með hund?

„Bara ég hef gaman að þessu. Ég er búin að vera með hunda í gegnum tíðina. Mér finnst þetta rosalega mikill félagsskapur og yndi að vera með hund. Og öryggi líka. Það hefur einu sinni verið opnuð hurðin hjá mér, ég gleymdi að læsa og hún lét sko vita,“ segir Kristín.

Litlu hvolparnir tveir verða seldir. Mikil eftirspurn er eftir gæludýrum og hefur aukist til muna eftir að faraldurinn skall á.

„Það er mikið að gera hjá öllum dýralæknum held ég bara á Íslandi, hjá öllum dýralæknum sem sinna smádýrum. Fólk er að koma með hvolpa og kettlinga og fólk er að hringja og spyrja hvar hægt sé að fá hunda, kettlinga eða hvolpa. Flestir staðir þar sem áður hefur verið hægt að finna dýr tiltölulega auðveldlega, eins og Facebook, Kattholt, Dýrahjálp, þar er ekki neitt að sækja lengur,“ segir Hanna.

Hanna segir mikilvægt að hugsa dæmið til enda.

„Það er náttúrulega mikil ábyrgð að taka að sér dýr. Við getum ekki bara hugsað hvað við fáum frá þeim heldur hvað við getum fært þeim,“ segir Hanna. Dýrir þurfi hreyfingu, mat og félagsskap. Ekki megi skilja þau eftir ein í langan tíma. 

„Bæði tímaskuldbindingar og fjárhagsskuldbindingar því það er ekkert ódýrt að eiga dýr í dag. Það getur kostað allt að tuttugu þúsund krónur á mánuði að fóðra hunda af þessari stærð,“ segir Hanna og vísar til Husky-hunds sem situr hjá henni.

Þetta eru ráðleggingar Hönnu til þeirra sem ígrunda að fá sér gæludýr:

 

Mynd: Eggert Þór Jónsson / RÚV