Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Sigurður Ingi styður frumvörp forsætisráðherra

12.11.2020 - 16:57
Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, styður frumvörp Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra um breytingar á stjórnarskrá og segist tilbúinn til að vera meðal flutningsmanna þeirra. „Við framsóknarmenn erum tilbúnir til þess að fjalla á jákvæðan hátt um þetta og ég get því vel hugsað mér að vera flutningsmaður að þessum frumvörpum,“ segir Sigurður Ingi í samtali við fréttastofu.

„Já, ég hef tekið virkan þátt og einlægan í þessari vinnu formannanna og að mínu mati eru öll þessi frumvörp til bóta og sum nauðsynleg. Ég hef lýst þeirri skoðun minni að ég muni styðja þau og get þess vegna verið flutningsmaður ef eftir því er leitað,“ segir hann.

Telur auðlindaákvæðið gott og skýrt

Spurður hvort það sé eitthvað sérstakt í frumvörpunum sem hann myndi  vilja gera breytingar á segir hann svo ekki vera. „Mér finnst, til að mynda, auðlindaákvæðið vera orðið mjög gott og þétt og skýrt. Og það sama gildir um sum þeirra annarra ákvæða sem þarna eru. Vinnan við forsetakaflann var ágæt. Ég tel það mikilvægt að við skilum þessari vinnu til Alþingis og gefum Alþingi kost á að kljást við þetta. Það hefur verið mín skoðun frá upphafi að það sé hægt að vinna þetta í áföngum. Áfangasigrar eru líka sigrar og ég tel að Alþingi geti gert það, “ segir hann.

Sumir formenn fullir efasemda frá upphafi

Þá segist hann vita að formenn sumra flokka hafi farið inn í samstarfið um frumvörpin fullir efasemda um að það væri möguleiki að komast að samkomulagi og hafi jafnvel sagt sig frá því á einhverjum tímapunkti. Aðspurður segist hann þá eiga við þá formenn sem hafi lagt fram mál á þingi um önnur frumvörp þessu tengd, eða haft yfirlýsingar um að málið hafi strandað fyrir löngu.

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, hefur sagt að ekki hafi náðst samkomulag um frumvörp forsætisráðherra og að hann búist ekki við slíku samkomulagi. Spurður hvort ekki sé eining um málið milli formanna stjórnarflokkanna segir Sigurður að það verði hver og einn að gera málið upp við sig. „En ég fæ ekki betur séð en að formaður Sjálfstæðisflokksins hafi tekið virkan þátt í þessari vinnu alveg til þessa,“ segir hann.

Segir ákvæði Katrínar betra en hans eigið

Sigurður Ingi lagði sjálfur fram frumvarp til stjórnarskrárbreytinga í hans forsætisráðherratíð árið 2015. Þar var skýrt kveðið á um að aldrei mætti selja gæði í þjóðareign eða veðsetja. Spurður hvort hann telji að frumvarp forsætisráðherra ætti að kveða skýrar á um tímabundin afnot og gjaldtöku segir hann að frumvarpsdrögin sem nú liggi fyrir innihaldi tryggingu fyrir því að úthlutun verði aldrei með varanlegum hætti, sem þýði annars vegar að þær verði þá að vera tímabundnar eða með uppsagnarákvæði. „Þannig að mér finnst ákvæðið vera skýrt og dæmigert stjórnarskrárákvæði,“ segir hann.

Aðspurður hvort honum þyki auðlindaákvæði Katrínar betra en hans eigið segist hann telja að svo sé: „Já, ég er á þeirri skoðun og tel að vinnan á kjörtímabilinu hafi bætt það enn frekar“.

Þorgerður Katrín styður þrjú frumvarpanna

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, hefur gefið það út að hún verði flutningsmaður á þremur af fjórum frumvörpanna. Hún segir ljóst að grundvallarágreiningur ríki um auðlindákvæðið, og að hún styðji ekki frumvarpið sem snýr að því. Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, hefur ekki viljað tjá afstöðu sína, Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, hefur sagt að hann styðji frumvörpin ekki án breytinga og Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, hyggst ekki styðja öll frumvörpin.