Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Rússar segja bandarískt kosningakerfi „úrelt“

US President Donald Trump shakes hands with Russian Foreign Minister Sergey Lavrov in the White House in Washington, Wednesday, May 10, 2017. President Donald Trump on Wednesday welcomed Vladimir Putin's top diplomat to the White House for Trump&#039
Donald Trump og Sergei Lavrov í Hvíta húsinu árið 2017. Mynd: AP - Rússneska utanríkisráðuneyti
Sergey Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, segir kerfið sem viðhaft er við forsetakjör í Bandaríkjunum úr sér gengið og „afskræmi vilja íbúa landsins.“ Hann vill ekki óska Joe Biden sigurvegara kosninganna 3. nóvember til hamingju enn um sinn.

Þetta kom fram í máli ráðherrans á blaðamannafundi í dag er hann ræddi um úrslit forsetakosninganna í Bandaríkjunum. Aðspurður um hvers vegna Vladímír Pútín Rússlandsforseti hefði ekki sent Biden sigurvegara kosninganna heillaóskir líkt og venja er svaraði Lavrov að endanleg úrslit lægju ekki fyrir.

Ráðherrann rússneski sagðist bíða þess að bandarískur starfsbróðir sinn Mike Pompeo viðurkenndi úrslit kosninganna, sem hann hefur ekki gert og það vakið furðu víða um heim. Þetta er í takt við málflutning Donald Trumps fráfarandi Bandaríkjaforseta sem laut í lægra haldi fyrir Biden í kosningunum. Árið 2016 er Trump var kosinn forseti sendi Pútín honum heillaóskir innan klukkustundar frá því að úrslit lágu fyrir. Þessi ummæli Lavrov eru í takt við fyrri yfirlýsingar rússneskra stjórnvalda en talsmaður Pútíns sagði fyrr í vikunni að engar heillaóskir yrðu sendar vestur um haf uns „opinber úrslit lægju fyrir,“ og þar sem enn stæði lagalegur ágreiningur um úrslitin væri betra að bíða með skeytasendingar.

Þrátt fyrir að hvorki Pompeo né Trump hafi viðurkennt ósigur hafa fjölmiðlar vestanhafs lýst Biden sigurvegara kosninganna þar sem hann hefur hlotið meira en 270 kjörmenn sem nauðsynlegt er til að bera sigur úr býtum.