Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Ræða aukagreiðslur vegna COVID-álags

Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Kjarasamningar framhaldsskólakennara við ríkið renna út um áramótin. Guðjón Hreinn Hauksson formaður félags þeirra er uggandi yfir hægum gangi viðræðna. Kennarar hafa lagt til við samningaborðið að þeir fái aukagreiðslur vegna mikils álags í starfi í faraldrinum.

Framhaldsskólakennarar skrifuðu undir skammtímasamning í apríl eftir að hafa verið samningslausir í rúmt ár og átti að nota tímann fram að áramótum til viðræðna. Guðjón  segir að þær hafi ekki gengið sem skyldi.

„Þetta gengur frekar illa, skulum við segja og afraksturinn er ennþá frekar óljós. Við höfum lagt mikla áherslu á að við klárum þetta fyrir áramótin þgar samningurinn rennur ut og höfum lagt mikla áherslu á að það verði ekki tafir á okkar fundahöldum. Þannig að við getum farið inn í nýtt ár með nýjan samning. Tíminn er að verða mjög knappur,“ segir Guðjón.

Hann segir að enn sem komið er sé ekki á dagskrá að vísa deilunni til ríkissáttasemjara. 

„Það kemur vonandi ekki til þess, en ef okkur sýnist vinnan halda áfram í þessum óljósa farvegi, þá þurfum við að hugsa þau mál af alvöru.“

Að sögn Guðjóns felst í kröfum kennara meðal annars álagsgreiðsla fyrir þau auknu verkefni sem þeir hafa tekið á sig í kórónuveirufaraldrinum.

„Við komum með þetta inn á samningaborðið og ég held að allir átti sig á því að vinna kennara er langt umfram það sem eðlilegt er.  Verið að vinna mun meiri vinnu sem ekki er greidd eins og staðan er.“