Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Óvissa um námslok getur fælt fólk frá iðnnámi

12.11.2020 - 17:50
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Vilhjálmur Þór Guðmun - RÚV
Óvissa um námslok er ein af ástæðum þess að iðnnám freistar ekki eins og bóknám segir Hildur Ingvarsdóttir skólastjóri Tækniskólans. Erfitt getur reynst að komast á samning hjá meistara og kynning á iðnnámi í lok grunnskóla mætti vera betri. 

Endurskoða má margt í iðnnámi

OECD hefur ráðlagt íslenskum stjórnvöldum að einfalda regluverk í kringum iðnnám og tekur Hildur undir að endurskoða mætti margt, en gæta þess jafnframt að ekki verði slegið af kröfum.  Hún segist í viðtali við Spegilinn gjarnan vilja sjá fleiri í iðnnámi og fleiri iðnmenntaða, en til þess að svo verði þyrfti að gera ákveðnar breytingar.

Oft erfitt að komast á samning

"Við þyrftum að geta tryggt nemendum námslok, þannig að nemandi sem kemur hingað í Tækniskólann og er að fara að læra t.d. rafvirkjun að hann viti að ef hann sinnir sínu námi vel allan tímann að þá sé hann búinn eftir ákveðinn tíma. Margir geta verið búnir eftir ákveðinn tíma, en það er ekki vissa fyrir því vegna þess að þú þarft að komast á samning. Það getur verið misauðvelt eða miserfitt að komast á samning og það er partur af því hvenær þú mátt svo þreyta sveinspróf til þess að fá þín réttindi" segir Hildur.

Vantar leið til þess að ljúka iðnnámi án samnings

En er meistarakerfið eina kerfið sem hægt er að vinna eftir, eru til einhverjar aðrar leiðir í iðnmenntuninni?

"Meistarar gegna miklu og góðu hlutverki í menntun okkar iðnaðarmanna" segir Hildur. "Kerfið er hins vegar þannig að til þess að eiga möguleika á að þreyta sveinspróf og möguleika á að fá réttindi þá verður þú að fá einhvern til þess að ráða þig í vinnu í eitt til tvö og hálft ár. Og hann þarf að greiða þér laun allan tímann. Það er ákveðin fyrirstaða og það fer eftir atvinnulífinu hverju sinni og eftir greininni hvort það er svigrúm til þess".

Hildur segir að þetta meistarakerfið henti mörgum vel og það eigi að hiklaust að halda í það, en það þurfi líka að vera sá möguleiki til staðar að iðnnemi geti lokið sínu námi þó svo hann komist ekki á samning og hann geti þá klárað námið á annan hátt. 

Hlusta má á viðtalið við Hildi hér.