Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Óttast ekki að lyfjafyrirtæki hafi stytt sér leið

12.11.2020 - 20:45
Ingileif Jónsdóttir, prófessor í ónæmisfræðum við Háskóla Íslands og deildarstjóri hjá Íslenskri erfðagreiningu, segir að það sé kraftaverki líkast að það hafi tekist að þróa bóluefni á tíu mánuðum. Hún hefur trú á því að bóluefni verði farið í dreifingu sums staðar í heiminum í byrjun næsta árs. Ingileif var gestur Einars Þorsteinssonar í Kastljósi kvöldsins.

Gert er ráð fyrir að hérlendis þurfi um 550 þúsund skammta til þess að bólusetja um það bil 75 prósent þjóðarinnar og ná hjarðónæmi. Miðað er við að hver Íslendingur verði bólusettur tvisvar sinnum. Ísland kaupir bóluefni á grundvelli samninga framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins við lyfjaframleiðendur og Svíþjóð hefur milligöngu um að selja það Íslendingum. 

Óttast ekki fljótfærni í þróun

Ingileif útskýrir að RNA-bóluefni, eins og það sem lyfjarisinn Pfizer þróar nú, virki með þeim hætti að skaðlaus veira beri gen frá COVID-veiru og sýki frumur mannsins með því að koma erfðaefninu inn. RNA-bóluefni sé einfaldara en flest önnur bóluefni „að því leyti að þá ertu bara með RNA genið úr COVID-veirunni fyrir þetta eina gen sem býr til það prótein sem veiran notar til að bindast frumum líkamans,“ segir hún. 

Hún segir ekki hættu á að í þróuninni hafi fyrirtækin stytt sér leið, þrátt fyrir að bóluefnið hafi verið unnið í svo miklum flýti. „Vegna þess að, í fyrsta lagi er mjög strangt regluverk, og það er kannski strangara um bóluefni, sem er forvarnarefni, heldur en um lyf þar sem er verið að meðhöndla þá sem eru veikir. Það er mjög stíft ferli sem er fylgt og það eru eftirlitsstofnanir,“ segir hún. 

Stórt úrtak prófað

Bóluefnið hefur verið prófað á um það bil 43 þúsund manns. „Það er mikið, það eru stórar rannsóknir á virkni bóluefna og þær eru gjarnan nokkrir tugir þúsunda,“ þannig séu prófanir ekki gerðir á færra fólki en gengur og gerist. Þá segir hún að það skipti máli að rannsóknir hafi verið gerðar á fólki af ólíkum uppruna og fólki í áhættuhópum. „Það er til þess að sjá strax hvort fólk sem er í mestri hættu sé jafn vel varið eins og þeir sem eru yngri og hraustari,“ segir hún.

Ingileif segir að enn sé ekki mælt með því að börn séu bólusett en að rannsóknir á áhrifum efnisins á börn séu í gangi, bæði hjá Pfizer og AstraZeneca. 

Hefur ekki áhyggjur af framleiðslugetu

Ingileif segist hafa trú á því að það verði hægt að framleiða nóg bóluefni. Frá upphafi hafi verið vitað að framleiðslugeta yrði flöskuháls og því hafi strax verið farið í að byggja upp framleiðslugetu víða um heim. Til dæmis hafi lyfjafyrirtækin sagst hafa mikla framleiðslugetu og að þau myndu taka þátt í að framleiða fleiri bóluefni en þeirra eigið. 

Innviðir gætu sett strik í reikninginn í þróunarríkjum

Þótt flutningur bóluefnis hingað til lands verði sennilega ekki mikið vandamál og hægt verði að tryggja þá innviði sem nauðsynlegir eru er ljóst að skortur á traustum innviðum gæti sett strik í reikninginn víða. „Hér er þetta ekkert vandamál, bara spurning um skipulag. En í þeim löndum þar sem innviðirnir eru ekki til staðar verður þetta erfitt nema það verði séð til þess að ríkin fái aðgang að þessum innviðum,“ segir hún. Og að þar komi alþjóðasamstarf og samningar ríkja um aðgang að bóluefni eins og GAVI og COVAX til sögunnar. Þá nefnir hún að ólíkar tegundir bóluefnis þarfnist ólíkra innviða og að því verði hægt að haga því eftir aðstæðum hvers konar bóluefni verður sent til hvaða ríkja. 

Að lokum segir hún að bólusetning gegn COVID-19 sé stærsta áskorunin sem lyfjafyrirtæki hafa staðið frammi fyrir en á sama tíma gott dæmi um samstarfsvilja og samtakamátt stofnana og fyrirtækja. „Það er ofsalega mikið samstarf og mikill samstarfsvilji í því að deila þekkingu, taka áhættu og byggja upp framleiðslugetu,“ segir hún.