Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Lífsins tré - Böðvar Guðmundsson

Mynd: Aðsend / Aðsend

Lífsins tré - Böðvar Guðmundsson

12.11.2020 - 18:30

Höfundar

„Bækurnar sem hafa verið kallaðar Vesturfarasögurnar, það er að segja Lífsins tré og Híbýli vindanna, þær urðu til sem eitt verk. Ég skrifaði þetta sem langa skáldsögu fyrst en útgefanda mínum sýndist að þetta myndi verða allt of langt fyrir eina skáldsögu og þar af leiðandi urðu þær tvær,“ segir Böðvar Guðmundsson höfundur hinna ægivinsælu skáldsagna um Ólaf fíólín og afkomendur hans, bæði þá sem fluttust vestur um haf og þá sem urðu eftir.

Báðar bækur Vesturfarasagna Böðvars, Híbýli vindanna og Lífsins tré, telja vel á sjöunda hundrað blaðsíðna og eru gjöful lesning. Í þættinum Bók vikunnar á sunnudag verður einkum hugað að síðari hluta þessa mikla verks þótt upphafi sögunnar um Ólaf Jensson, verði vissulega gaumur gefinn enda fiðlan sem hann ævinlega var kenndur við og  komin er frá Jörundi hundadagakonungi mikilsverður þáttur í sögu afkomenda Ólafs sem sögð er í bókunum. 

Vesturfarasögurnar má kalla bréfaskáldsögu. Ekki aðeins byggir frásögnin á því að uppkomið langalangafabarn Ólafs fíólíns, óperusöngvarinn, Ólafur Tryggvason, segir söguna í löngu bréfi til dóttur sinnar, Pat, heldur byggir Böðvar sjálfur sögurnar að miklu leyti á bréfum sem hans eigin ættingjar sem fluttust vestur seint á nítjándu öld og í byrjun þeirrar tuttugustu skrifuðu ættingjum sem urðu eftir á Íslandi en einnig á bréfum annarra vesturfara.

Sögurnar eru eigi að síður skáldsögur með spennandi söguþræði og afar áhugaverðum persónum. Þær eru studdar sögulegum staðreyndum sem og sögum af raunverulegu fólki, staðháttum og aðstæðum daglegs lífs á sögutímanum sem spannar um það bil hálfa öld.

Sögusviðið er bæði á Íslandi og í Kanada og er farið víða um í Vesturheimi. Sonur Ólafs fíólíns, Jóhann Ólafsson eða Joe Olson, vinnur t.d. um tíma við gullgröft í Klondike langt í norðri  og bróðir hans Jens Duffrín ferðast með sirkus vítt og breitt um Kanada. Aðallega gerist sagan þó landsvæðinu vestan Winnipegvatns og síðar í Winnipega sem og í Gimli, en einnig í Borgarfirðinum og í Reykjavík.

Híbýli vindanna og Lífsins tré komu fyrst út hvor á sínu árinu 1995 og 1996 réttum hundrað árum eftir að fyrsta bréfið sem vitnað er til í sögunum er skrifað og eru þessar bækur líklega fyrstu bókmenntaverkin, sögurnar, sem skrifaðar eru um vesturfara á Íslandi þar sem þeim er ekki einbert lýst sem landeyðum og þjóðníðingum. 

Lífsins tré er bók vikunnar þótt Híbýli vindanna verði þar væntanlega ekki langt undan. Umsjónarmaður þáttarins er Jórunn Sigurðardóttir sem ræðir við þau Guðrúnu Björk Guðsteinsdóttur prófessor í enskum bókmenntum og Viðar Hreinsson rithöfund og bókmenntafræðing um bókina.