Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Jurtaíblandaðan ost ber að flokka sem mjólkurost

Mynd með færslu
 Mynd: Hólmfríður Dagný Friðjónsd - RÚV
Rifinn ostur sem hertum flögum úr jurtafeiti hefur verið bætt saman við ber að tollflokka sem mjólkurafurð en ekki jurtaafurð. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu Bændasamtaka Íslands þar sem vitnað er í bindandi álit Skattsins þar að lútandi frá 17. febrúar síðastliðnum.

Bændasamtökin hafi verið í miklum samskiptum við stjórnvöld á þessu ári vegna tollflokkunar ýmissa landbúnaðarvara. Gunnar Þorgeirsson, formaður Bændasamtaka Íslands segir í samtali við fréttastofu að með því að flokka umræddan ost sem jurtaost lendi hann utan tollkvóta sem samið er um við Evrópusambandið.

„Þetta er gríðarlegt magn,“ segir hann eða 298 tonn árið 2019, það sé á við framleiðslu tíu til tólf meðalbúa á Íslandi. Skatturinn hafi leitað álits Tolla- og skattaskrifstofu Evrópusambandsins sem hafi staðfest framangreinda niðurstöðu 4. júní í sumar.

Það hafi loks verið áréttað enn frekar í tilkynningu tollgæslustjóra til lögmanna hagsmunasamtaka framleiðenda síðar sama mánuð. Þar sagði jafnframt: „Loks mun endurskoðunardeild Skattsins athuga hvort vörur sem ættu að vera í 4. kafla í samræmi við ofangreind sjónarmið hafi á sl. sex árum verið flokkaðar í aðra kafla tollskrár.“

Því líti Bændasamtök Íslands þannig á að þetta mál og önnur sem varði tollflokkkun séu til skoðunar hjá þar til bærum stjórnvöldum; endurskoðunardeild Skattsins og Alþingi sem hafi falið Ríkisendurskoðun 5. nóvember síðastliðinn að gera skýrslu um hvernig Skatturinn framkvæmi tollalög.