Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ill meðferð á fólki á Arnarholti kemur upp á yfirborðið

Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson / RÚV
Farið var illa með fólk sem dvaldi á vistheimilinu Arnarholti allt til ársins 1971. Það var til dæmis látið vera í einangrun í litlum fangaklefa í margar vikur.

Þetta kemur fram í yfirheyrslum yfir starfsfólki í Arnarholti árið 1971. Almenningur hefur aldrei fengið að sjá þær. Nefnd sem kannaði málið sagði að ekkert þyrfti að gera. Samt ákvað borgarstjórn að að gera eitthvað í málinu.

Hvatt til rannsóknar á öðrum heimilum

Margt fólk hefur fengið bætur fyrir að hafa þurft að þola illa meðferð á stofnunum og heimilum ríkisins. Það var allt á heimilunum og stofnununum þegar það var börn. Fyrst fékk fólk sem var í Breiðuvík bætur og síðast fólk sem var á Kópavogshæli.

Fullorðið fólk var líka á vistheimilum og stofnunum. Aðbúnaður þess hefur ekki verið rannsakaður og það hefur ekki fengið bætur. Í skýrslu um Kópavogshæli eru stjórnvöld hvött til þess.

Þurfamannaheimilið Arnarholt

Eitt af heimilunum sem hafa ekki verið rannsökuð er Arnarholt á Kjalarnesi.

Arnarholt var opnað 1945. Það var kallað þurfamanna-heimili. Þurfamaður er það sama og fátæklingur. Arnarholt var á vegum Reykjavíkurborgar. Borgarlæknirinn í Reykjavík sagði að þar byggju Reykvíkingar gætu ekki séð um sig sjálfir. Þeir væru með margs konar vanheilindi, oftast geðræn. Þetta var árið 1971.

Margt af heimilisfólkinu þurfti mikla umönnun og hjúkrun. Í Arnarholti voru ekki aðstæður til þess. Það var ekki sjúkrastofnun.

Þegar Arnarholt var opnað voru 45 manns þar. Þeim fjölgaði smátt og smátt upp í 60. Árið 1972 var sá yngsti á heimilinu 22 ára en sá elsti rúmlega 80 ára.

Arnarholt tekið til rannsóknar

Steinunn Finnbogadóttir ljósmóðir var borgarfulltrúi í Reykjavík. Árið 1970 fór hana að gruna að margt væri að í Arnarholti. Guðrún systir hennar var þá að vinna í Arnarholti.

Steinunn vildi láta rannsaka aðstæður í Arnarholti. Borgarstjórn samþykkti það. Þrír læknar voru skipaðir í nefnd til að kanna aðbúnað sjúklinga. Einnig átti að kanna læknisþjónustu. Þá átti að kanna hvort það væri í lagi að vista fólk með geðsjúkdóma í Arnarholti.

Nefndin yfirheyrði 24 starfsmenn og fyrrverandi starfsmenn í Arnarholti. Steinunn fékk að vera viðstödd átta yfirheyrslur. Að öðru leyti fengu ekki aðrir en læknarnir að fylgjast með yfirheyrslunum.

Nefndin skilar niðurstöðum rannsóknarinnar

Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að ekki væru nægar sannanir fyrir ásökunum um illa meðferð og slæman aðbúnað heimilismanna í Arnarholti.

„Telur nefndin að framkomnar ásakanir krefjist engra frekari aðgerða gagnvart einstökum aðilum,“ 

segir í niðurstöðunum.

Borgarstjórn grípur til aðgerða

Steinunn var ekki sátt við niðurstöðu nefndarinnar. Hún vildi ræða um hana á lokuðum fundi í borgarstjórn. Eftir það samþykktu allir borgarfulltrúar tillögu um að vistheimilið ætti að tilheyra geðdeild Borgarspítalans. Til þess þurfti að breyta lögum.

Fréttastofa RÚV er með yfirheyrslurnar yfir starfsmönnunum. Það eru um 100 blaðsíður. Þær hafa ekki verið birtar opinberlega áður.

Hér má sjá eina blaðsíðu af rúmlega 100 sem fréttastofa hefur undir höndum, þar sem starfsfólk í Arnarholti lýsir aðbúnaði á heimilinu. Nöfn hafa verið afmáð.

Starfsfólk lýsir illri meðferð á vistmönnum

Starfsfólkið sagði frá því hvernig farið var með heimilismenn í Arnarholti. Sagt var að þeir fengju ekki að borða til að refsa þeim fyrir hegðun. Þeir hafi líka læstir úti í öllum veðrum. Sumir starfsmenn segja að heimilisfólk hafi ekki fengið að hitta lækni. Þá hafi húsnæðið verið algjörlega ófullnægjandi. Starfsfólk hafi líka verið of fátt. 

Alvarlegustu atvikin eru þegar heimilismenn dóu í Arnarholti. Starfsfólkið lýsir nokkrum slíkum tilvikum. Á einum stað segir:

„Dagana áður en [X] dó, var hann staddur (dreginn) í mat á milli húsa og virtist, af þeim sem sáu – að hann væri mikið veikur, þetta sáu nokkrir og m.a. undirritaður og hafði ég orð á því að maðurinn væri mikið veikur og spurði ég gangastúlku af hverju hún væri að fara með hann í mat svo fárveikan, hún svaraði: það er ekkert að honum, en maðurinn dó stuttu seinna, án þess að fara undir læknis hendur.“

Á öðrum stað segir:

„Eitt sinn dó vistkona í þann mund, sem læknirinn ók úr hlaði. Fannst liggjandi, hálfstirnuð, að hálfu leyti úr rúminu. Ekki hirt um að ná til læknisins.“

Dag einn uppgötvaðist að kona sem bjó á heimilinu var týnd. Ekki var leitað að henni þótt hún hefði horfið deginum áður. Konan fannst stuttu síðar látin í fjörunni.

Þá segir á enn öðrum stað:

Árið 1969 hafi sjúklingi að nafni [X] verið vísað út á útivistartíma sjúklinga, þótt hún hafi verið veik. Hafi [X] veikst um nóttina og látizt um morguninn.

Hér má sjá eitt skjalið úr vitnaleiðslunum. Nöfn hafa verið fjarlægð.

Refsingar algengar

Refsingar virðast hafa verið algengar í Arnarholti. Eftirfarandi er frásögn starfsmanns af sjúklingi:

„Var lokaður inni í herbergi sínu vikum saman, vegna þess að hann vildi strjúka. Þarfir sínar var hann látinn gera í fötu, en hún var geymd í klæðaskáp herbergisins. Skuggsýnt var í þessu herbergi, enda lítill þakgluggi. Hann var eins og hellisbúi þarna inni, órakaður og óhreinn, þegar að hann fór á ganginn, þá var hann talsverða stund að venjast dagsbirtunni.“

Oftast var heimilismönnum refsað með því að setja þá í selluna. Sellan var steinsteyptur klefi. Einn lítill gluggi var á honum, upp undir lofti. Járnrimlar voru fyrir glugganum. Sellan var notuð ef sjúklingar voru ölvaðir, ef þeir reyndu að strjúka eða ef sjúklingur var í maníu.

Þjáður andlega og líkamlega

Einn starfsmaður lýsir því að gömlum manni á heimilinu var gefin hálf vodkaflaska. Hann drakk hana og varð kenndur. Starfsmaðurinn spurði yfirmann hvað hann ætti að gera. Honum var sagt að setja gamla manninn í selluna.

Starfsmenn lýsa sjúklingi sem sagður var mjög þjáður.

„Lemur höfði við steinveggi. Grætur þá stundum hátt og er þá settur inn í „sellu“, en þar grætur hann lægra. Er þar hafður í nokkra daga, „sem ekki þykir mikið“. Þetta skeði nokkuð oft. Læknirinn vissi um, að sellan var oft notuð.“

Ein skelfilegasta frásögnin á notkun sellunnar er af tvítugum manni með þroskahömlun. Hann strauk stundum úr Arnarholti og fór móður sinnar í Reykjavík. Hann var settur í selluna fyrir það.

„Og þar var hann lokaður inni svo vikum skipti. Eina tilbreytingin í þessari rökkurvist, var þegar hann var baðaður, honum færður matur og drykkur, gólfið þvegið og koppurinn tæmdur. Ég reyni ekki að lýsa hugarstríði og líðan drengsins, til þess á ég engin orð. Fannst mér hann vera orðinn svo daufur og niðurdreginn, að óhug sló að mér, hvað sem um aðra hefur verið. Þessar aðfarir með drenginn munu skýrðar af ábyrgum aðila sem „geðræn meðferð“.“

Hér fyrir neðan má sjá fleiri síður úr vitnaleiðslunum. Nöfn hafa verið afmáð.

Heimilismenn hafðir í útihúsum fyrir dýr

Starfsfólkið talar oft um húsakynnin. Á einum stað segir meðal annars:

„Í gripahúsinu hafast við um 30 vistmenn. Það má segja að það beri vott um ótrúlegt hirðuleysi að hafa vistað sjúklinga í þessum húsakynnum í samfellt 30 ár.“

Stjórnendur Arnarholts voru líka yfirheyrðir. Kristján Þorvarðarson yfirlæknir sagðist telja að sjúklingar á Arnarholti fengju góða meðferð. Aðstæður á heimilinu hefðu batnað mikið.

Yfirhjúkrunarmaðurinn sagði að margir heimilismenn væru mjög erfiðir. Alltaf væri haft samband við lækni ef það átti að setja einhvern í selluna. Hann sagði þó að það væri betra að fá annan lækni á heimilið og geðlækni líka. Hann sagði líka að kvartanir sjúklinga væru alltaf teknar alvarlega. Það sem helst væri í ólagi væri húsnæðið.

Forstöðumaðurinn skipti sér ekki af hjúkrun

Gísli Jónsson var forstöðumaður Arnarholts. Hann sagði að Arnarholt hefði upphaflega átt að vera hæli fyrir gamalt fólk og sjúklinga. Það átti aldrei að vera lokað hæli. Stofnunin hefði neyðst til að taka við sjúklingum sem þurftu að vera í einangrun. Gísli sagðist hafa heyrt að yfirhjúkrunarmaðurinn beitti heimilismenn hrottaskap. Hann hefði þó ekki séð það gerast. Sömu sögu væri að segja af refsingum. Gísli sagðist ekki skipta sér af hjúkrun í Arnarholti og gæti ekkert sagt um þau störf. Hann sagðist hafa rætt við borgarstjóra og fleiri hjá borginni um þessi mál. Ástandið á heimilinu hefði batnað mikið eftir að hann fór að ræða málin.

Gísli skrifaði bréf til heilbrigðismálaráðs Reykjavíkur. Þar viðurkennir hann að það þurfi að gera úrbætur á heimilinu. Hann lýsir ófriði milli starfsfólks heimilisins og almennum vandræðum með starfsfólk.

Borgarfulltrúar gátu ekki fallist á niðurstöðurnar

Borgarstjórn Reykjavíkur var ósammála nefndinni um að ekkert þyrfti að gera í Arnarholti. Eftir umræðurnar í borgarráði lögðu borgarfulltrúarnir Steinunn Finnbogadóttir og Adda Bára Sigfúsdóttir fram tillögu:

„Með hliðsjón af vitnisburðum allmargra starfsmanna, m.a. fostöðumanns og hjúkrunarkonu, getur borgarstjórn ekki fallist á niðurstöður nefndar þeirrar, sem kannaði hagi Vistheimilisins að Arnarholti. Borgarstjórn telur, að það, sem fram hefur komið við yfirheyrslur nefndarinnar, bendi eindregið til þess, að heimilisbragur í Arnarholti sé óviðunandi, framkoma við sjúklinga stundum óverjandi og læknisþjónusta gersamlega ófullnægjandi. Borgarstjórn leggur því fyrir heilbrigðismálaráð og borgarlækni, að því verði hraðað, að geðdeild Borgarspítalans taki við allri stjórn hælisins og jafnframt þegar í stað gerðar ráðstafanir til úrbóta á heimilisháttum og læknisþjónustu.“

Á næsta fundi borgarstjórnar var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum að Arnarholt yrði hluti af geðdeild Borgarspítalans. Borgarstjórn vildi að yfirstjórn geðdeildar spítalans bætti úr því sem þurfa þótti í rekstri heimilisins. Borgarstjórn taldi ekki þörf á aðgerðum gagnvart einstökum aðilum málsins.

Heimilið viðurkennt

Arnarholt var fært undir geðdeild Borgarspítalans 1. september 1971. Eftir það sáu læknar geðdeildarinnar um rannsóknir og meðferð sjúklinga í Arnarholti. Friðrik Sveinsson héraðslæknir skoðaði heimilið árið 1972. Hann gerði ekki alvarlegar athugasemdir við meðferð sjúklinga. Hann sagði hins vegar að húsnæðið væri mjög lélegt og salernis- og hreinlætisaðstaða ófullnægjandi. Eftir það varð Arnarholt hjúkrunarheimili samkvæmt sjúkrahúslögum. Það var í febrúar 1972.

Arnarholt var starfrækt sem sjúkrastofnun til 2005. Þá var því lokað og sjúklingar fluttir á aðrar stofnanir. Fyrir nokkrum árum leigði Útlendingastofnun aðstöðu þar fyrir flóttafólk. Í dag eru byggingarnar í Arnarholti leigðar út sem íbúðir.