Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Háskólastúdentar segja prófafyrirkomulag HÍ óábyrgt

Isabel Alejandra Diaz
 Mynd: Aðsend - Ljósmynd
Háskólastúdentar segja óábyrgt af Háskóla Íslands að ætla að halda lokapróf fyrir mörg hundruð nemendur í húsnæði skólans. Isabel Alejandra  Diaz, forseti Stúdentaráðs HÍ, segir þetta í engu samræmi við sóttvarnaráðstafanir. Stúdentar kanna nú stöðu sína.

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, tilkynnti í byrjun mánaðarins að öll lokapróf yrðu á netinu, nema samkeppnispróf og tiltekin próf. Í gær voru síðan birtir listar um fyrirkomulag prófa og þar kom í ljós að þessi undanþága hafði verið nýtt í meiri mæli en stúdentar höfðu búist við.

Isabel segir að hafa verði í huga að aðstæður háskólastúdenta séu aðrar en hjá framhaldsskólanemum. 

„Þessi stefna um að halda skólanum opnum, hún á ekki við um háskólanemendur. Hvað stjórnendur háskólans varðar, þá höfum við verið að krefjast þess að tekið verði tillit til ólíkra aðstæðna, því í hópi stúdenta er fólk í áhættuhópi. Svo þarf líka að taka tillit til þeirra sem hafa miklar áhyggjur af því að mæta í skólann og smitast eða vera smitberar,“ segir Isabel.

Hún segir að það sé mismunandi eftir deildum hversu mörg próf verða í húsnæði skólans. „Á hugvísindasviði eru það til dæmis aðeins tvö próf, en á heilbrigðisvísindasviði eru þau 72. Þetta kom verulega á óvart, hvað þetta var mismunandi á milli fræðasviða. Ég get til dæmis nefnt að í desember eru nokkur próf á heilbrigðisvísindasviði og það eru rúmlega 1.100 nemendur sem eru að mæta á prófstað þennan dag. Þarna er verið að safna saman fólki sem að öllu jöfnu umgengst ekki hvort annað,“ segir Isabel.

Frá Háskóla Íslands fengust þær upplýsingar að fyrirkomulag prófanna væri á ábyrgð viðkomandi fræðasviða, en ekki náðist í forseta viðkomandi fræðasviða.

Isabel segir að nú skoði stúdentar næstu skref. Þeir hyggjast leita álits hjá sóttvarnalækni um þetta fyrirkomulag og vonast til að „gott og almennilegt samráð þar sem tekið er mið af ólíkum þörfum fólks“ náist við háskólayfirvöld.