Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Hafna fullyrðingum um að flugþjónustan sé skert

12.11.2020 - 15:49
Mynd með færslu
 Mynd: Gunnlaugur Starri Gylfason - RÚV/Landinn
Norlandair og Vegagerðin hafna fullyrðingum Samtaka atvinnurekenda á sunnanverðum Vestfjörðum um skerta flugþjónustu. Vélar Norlandair séu sambærilegar við þær sem hafi verið notaðar síðustu ár.

Vegagerðin segir flugvélar Norlandair sambærilegar við þá vél sem Flugfélagið Ernir hefur notað til að þjónusta sunnanverða Vestfirði undanfarin ár. Norlandair ætli að aðlaga flugáætlun sína að þörfum íbúa og fyrirtækja á Vestfjörðum. 

Samtök atvinnurekenda á sunnanverðum Vestfjörðum hafa harðlega gagnrýnt að Vegagerðin hafi gengið til samninga við Norlandair um að sinna flugþjónustu á svæðinu. Við það muni þjónustan skerðast. Vélar Norlandair séu gamlar og litlar og geti ekki sinnt þörfum íbúa og fyrirtækja á svæðinu. 

Vegagerðin segir útboðið hafa tekið langan tíma, meðal annars vegna kærumála. Niðurstaða útboðsins var sú að Norlandair var með lægsta tilboðið í flug á milli Reykjavíkur og Gjögurs og Reykjavíkur og Bíldudals. Flugfélagið Ernir var með lægsta boð í leiðina á milli Hafnar og Reykjavíkur. Tilgangur útboðs sé að tryggja jafnræði fyrirtækja við opinber kaup og stuðla að hagkvæmni í rekstri. Fréttir af því að lægsta gilda boði hafi verið tekið ættu því ekki að koma á óvart enda í samræmi við lög.

Segja SASV fara með rangt mál

Norlandair hafnar fullyrðingum SASV; „Til stendur að nota nýlega 9 sæta Beechcraft B200 King Air, sem búin er jafnþrýstibúnaði. Jafnframt verður notast við Dash 8-200, sem er 37 sæta, þegar og ef þörf krefur. Að auki býr félagið yfir þremur Twin Otter flugvélum sem þykja einstaklega hentugar við erfiðustu skilyrði á norðurslóðum, en þær vélar notast félagið mest við á Grænlandi,“ segir í tilkynningu frá flugfélaginu.