Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hætta á að kröfur minnki verði farið að ráðum OECD

12.11.2020 - 15:32
Mynd: SI / SI
Skýrsla OECD, Efnahags og framfarastofnunarinnar, á regluverki ferðaþjónustu og byggingaiðnaðar hér á landi, sem kynnt var í vikunni, hefur vakið blendin viðbrögð hjá Samtökum iðnaðarins. Í skýrslunni er lagt til að endurskoða í heild sinni löggjöf um löggiltar starfsgreinar.

Leggja til að afnema löggildingu bakara og ljósmyndara

Taka eigi til skoðunar að draga úr reglubyrði fyrir smiði, rafvirkja, pípara og fleiri. Svo er beinlínis lagt til að afnema löggildingu bakara og ljósmyndara - þó erfitt sé að sjá beina tengingu þessara starfsgreina við byggingariðnað. Spegillinn ræddi við Björgu Ástu Þórðardóttur yfirlögfræðing Samtaka iðnaðarins. Hún segir að það felist viss hætta á því slakað verði á menntunar-, gæða- og hæfniskröfum verði farið að tilmælum OECD.

Gríðarleg krafa um menntun og fagmennsku

„Ég verð að segja já. Að það sé ákveðin hætta. Þegar þú dregur úr menntunarkröfum í þeim störfum sem nú er verið að tala um,  þá opnast markaðurinn betur fyrir þá aðila, sem eru ekki með þá menntun, sem við sem þjóð höfum lagt mikið upp úr. Okkur skortir þennan grunn og við teljum að menntun í grunninn sé jákvæð og leiðir til þess að við þróumst áfram sem þjóð.

Við skulum ekki gleyma því að hér á Íslandi er gríðarleg krafa til menntunar og fagmennsku. Við erum ekkert sérstaklega til í að slá af þeim kröfum. Megum við gera betur?. Klárlega. En þegar við erum að taka afstöðu þá hljótum við alltaf að horfa á gæðin sem grundvallarþátt í ákvörðunarþátttökunni,“ segir Björg.  

Almannahagsmunir undir

OECD segir að hvergi í Evrópu, eða aðildarlöndum samtakanna séu jafnmargar iðngreinar lögverndaðar eins og hér á landi. Eru Íslendingar þarna til fyrirmyndar eða eru þeir að flækja kerfið?

„Ég held að þarna þurfi að horfa á hverja og eina iðngrein fyrir sig. OECD fjallar ekki bara um iðngreinar. Þarna er annað og meira undir eins og heilbrigðisgreinar. Ég held að markmiðið í sjálfu sér sé ekki að vera með sem fæstar lögverndaðar iðngreinar. Við þurfum að horfa á hverja iðngrein fyrir sig og velta fyrir okkur þeim hagsmunum sem liggja þarna að baki og hvaða almannahagsmunir krefjast þessarar verndar.“ 

Neytendavernd er grundvallaratriði

„Auðvitað getur þetta viðmiðvið að við séum með flestar greinar lögverndaðar gefið okkur tilefni til að fara ofan í greinarnar, velta þessu fyrir okkur og hvort það séu einhver tækifæri til þess að gera einhverjar breytingar án þess að gera minni kröfur um gæði og hæfni og draga úr þeirri fagmennsku sem við teljum mikilvægt að ríki í þessum greinum. En að okkar mati er það einfaldlega þannig að hér eru gæði um neytendavernd grundvallaratriði og við þurfum að horfa á breytingar sem að draga ekki úr þessum tveimur lykilþáttum,“ segir Björg Ásta Þórðardóttir. 

Hægt er að hlusta á viðtalið við Björgu í heild hér.