Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Gætu bólusett þjóðina á örfáum dögum

12.11.2020 - 21:00
Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Óskar Reykdalsson, forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, segir að hægt væri að bólusetja þjóðina alla á örfáum dögum. Heilsugæslan verði enga stund að skipuleggja bólusetningu og að best væri að bólusetja sem allra flesta.

Óskar var gestur í þættinum Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í dag. „Við erum ekki lengi að því að bólusetja þjóðina. Við gætum þess vegna sett allt okkar starfsfólk á einhvern einn stað á einum laugardegi. Þá erum við ekki lengi að þessu,“ sagði Óskar í þættinum. „Við verðum enga stund að skipuleggja þetta, við erum búin að standa í því að breyta verklagi okkar stundum á hverjum degi.“

Tímasetningin fer eftir því hvenær og hversu mikið efni kemur til landsins

Óskar sagði að nú stæði yfir skipulagning á því hvernig fyrirkomulaginu yrði háttað. „Þetta er mjög spennandi og mikil gleði að sjá hvað þetta bóluefni virðist vera gott,“ sagði hann og benti á að hraðinn á þróun bóluefnis væri í raun eins mikill og hægt hefði verið að gera sér vonir um. 

Aðspurður hvenær mætti búast við því að Íslendingar sem ekki væru í sérstökum áhættuhópum fengju bólusetningu sagði Óskar það einungis fara eftir því hvenær efnið bærist til landsins og í hversu stórum skömmtum. „Það eru meiri líkur á því að við fáum þetta í smáskömmtum og við byrjum á að velja úr ákveðna hópa og færum okkur áfram eftir áhættunni,“ sagði hann. 

Viljinn til bólusetningar gáfumerki

Óskar sagði Íslendinga vera meðal þeirra þjóða sem væru hvað duglegastar að sækja í bólusetningar. „Ég held að það sé gáfumerki að við skiljum hversu mikilvægt það er að bólusetja sig gegn sjúkdómum yfirleitt,“ segir hann.

Fólk átti sig á áhrifum bólusetningar: „Við áttum okkur á því að þegar við erum bólusett fáum við inn í okkur einhvers konar álag. Við getum alveg orðið dálítið þreytt á eftir. Það er sprautað inn efni sem líkist veirunni. Líkaminn fer í gang og æfir sig og svo næst þegar veiran kemur þá erum við í þjálfun. Þetta er eins og líkamsrækt,“ útskýrði hann.

Væri best að bólusetja sem allra flesta

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur gefið út leiðbeiningar um það hverjir skulu fá forgang í bólusetningar. Sóttvarnalæknir tekur ákvörðun um það hvernig málum skuli háttað hér á landi. 

„Það er reiknað með því að hver þurfi tvær bólusetningar með tveggja vikna millibili,“ sagði Óskar. Svo bæri að hafa í huga að kannski þyrfti ekki að bólusetja alla þjóðina enda væri sjaldan sem sýkingar næðu sér á strik ef mjög stór hluti þjóðarinnar hefði verið bólusettur. Þó væri best að bólusetja sem allra flesta.